Skip to main content

Heiðraðir fyrir 30 ára þjónustu í sóknarnefnd Reyðarfjarðarkirkju

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. sep 2023 13:14Uppfært 12. sep 2023 15:20

Þeir Björn Egilsson og Vilbergur Hjaltason voru um liðna helgi sérstaklega heiðraðir  og kvaddir við guðsþjónustu í Reyðarfjarðarkirkju fyrir rúmlega 30 ára þjónustu í sóknarnefnd kirkjunnar.

Af þessu tilefni fengu tvímenningarnir blómvendi og hvor um sig málverk eftir heimalistamanninn Aron Leví Beck sem notar listamannsnafnið Albeck. Albeck gerði gott betur og gaf kirkjunni á sama tíma sérstakt listaverk sem prýða mun safnaðarsal kirkjunnar eftirleiðis.

Benjamín Hrafn Böðvarsson, prestur í kirkjunni, segir vissulega marga eiga langa starfsævi í sóknarnefndum gegnum tíðina en segir þetta nokkuð sérstakt á síðari tímum.

„Það er orðið sérstakt að starfa í svona langan tíma. Það er vissulega kosið í nefnina á tveggja og fjögurra ára fresti samkvæmt starfsreglum Þjóðkirkjunnar. En þessir ágætu menn sem voru heiðraðir og kvaddir um helgina hafa verið í sóknarnefndinni allar götur síðan 1992. Við eigum í nefndinni fleira fólk sem hefur starfað lengi og þar á meðal ein sem hefur verið hér síðan 1997 og önnur til sem hóf störf árið 2000. En þarna var verið að kveðja fráfarandi sóknarmenn og auk þess þakka öllum þeim er komið hafa að starfi kirkjunnar á annan hátt.“

Í máli formanns sóknarnefndar kirkjunnar, Ragnars Sigurðssonar, kom fram að svo langur starfsaldur í sömu sóknarnefnd væri hugsanlega einsdæmi á Íslandi. Benjamín sjálfur segist ekki vita fyrir víst hvort svo sé en tilefnið hafi verið til staðar því bæði Björn og Vilbergur hafa báðir lagt mjög mikið af mörkum þau þrjátíu ár sem þeir hafa starfað með kirkjunni.

Kvaddir með blómum og gjöfum. Björn og Vilbergur á sunnudaginn var með öðrum fulltrúum sóknarnefndar og halda á málverkinu sem Albeck gaf Reyðarfjarðarkirkju sama dag. Mynd Reyðarfjarðarkirkja