Heiðraður fyrir vinnu sína við snjóathuganir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. okt 2023 09:52 • Uppfært 04. okt 2023 09:55
Tómas Zoëga, sem fylgst hefur með snjóalögum ofan Neskaupstaðar á veturna í meira en 40 ár, var heiðraður fyrir störf sín á opnum fundi um ofanflóðamál í bænum á mánudag. Nýtt fólk hefur tekið við keflinu auk þess sem Veðurstofan verður með starfsstöð þar frá áramótum.
Tómas tók við stöðu snjóathugunarmanns árið 1981 og var ráðinn til þess af Neskaupstað. Hann hefur gegnt því starfi áfram þótt starfið hafi síðar flust til Veðurstofunnar.
Harpa Grímsdóttir, deildarstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofunnar, færði Tómasi blómvönd og listaverk frá stofnuninni í þakklætisskyni á fundinum í Egilsbúð í fyrradag. Hún sagði hann hafa unnið fórnfúst og óeigingjarnt starf af ástríðu fyrir bæjarfélagið.
Tómas hefur nú látið af störfum. Daði Benediktsson er nýr snjóathugunarmaður. Honum til aðstoðar verður Hjálmar Joensen.
Þá hefur verið ákveðið að vaktmaður á vegum ofanflóðadeildar Veðurstofunnar verði með starfsstöð í Neskaupstað frá og með áramótum. Þá mun Hulda Rós Helgadóttir, snjóflóðasérfræðingur, koma til starfa. Stöðuveitingin er til 1,5 árs.
Harpa sagði vaktmanninn ódýrustu og áhrifaríkustu aðgerðina til að bæta vöktun gagnvart ofanflóðum því þrátt fyrir mörg og góð mælitæki þá greindu þau aldrei allar upplýsingar. Vaktmenn hafa verið á vegum Veðurstofunnar á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Á fundinum lýsti Harpa þeirri von sinni að hægt yrði að tryggja starfsstöð Veðurstofunnar í Neskaupstað til frambúðar og að því yrði unnið. Nóg sé af verkefnum sem tengist ofanflóðum á Austfjörðum.