Skip to main content

Heillegar minjar á Víknaslóðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. ágú 2025 14:06Uppfært 05. ágú 2025 14:07

Fornleifafræðingar eru í sumar, líkt og þau síðustu, við störf á Víknaslóðum við skrásetningar og athuganir. Einn þeirra segir svæðið merkilegt fyrir afar vel varðveittar minjar.


Indriði Skarphéðinsson og Rannveig Þórhallsdóttir frá austfirska fornleifafyrirtækinu Sagnabrunni, hafa séð um rannsóknirnar síðustu ár í samvinnu við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs. Í sumar hefur verið skráð í Húsavík og Herjólfsvík.

„Það sem er merkilegt við það svæði er að það leggst að mestu í eyði áður en stórvirkar vinnuvélar koma til sögunnar. Þess vegna er fjöldi vel varðveittra minja á svæðinu ótrúlegur. Fá svæði á landinu hafa jafn vel varðveitt búsetulandslag,“ segir Indriði.

Í Breiðuvík og Kjólsvík sáum við mikla mótekju, fjær bæjunum. Stórar grafir og stæður. Ég hugsa að þar hafi verið stunduð mótekja frá fyrstu tíð. Það hefur sennilega verið helsti orkugjafinn, enda stendur svæðið svo opið fyrir hafi að þar hefur varla verið skógur,“ segir Indriði og bendir á að ein af þremur sögnum í Íslendingasögunum um mótekju sé frá Borgarfirði.

Það eru hins vegar yngstu minjarnar sem eru í bestu ástandi. „Þetta eru mjög heildstæðar minjar um búsetuskipan og búskap á 19. og 20. öld. Að auki eru til góðar heimildir, í Kjólsvík er búið fram yfir 1900. Það er til teikning af bæjarhúsunum þar sem gerð er grein fyrir hverju rými. Að sama skapi er sjórinn að vinna á þessu svæði og því mikilvægt að skrá það. Í Kjólsvík er gömul smiðja að hrynja og í Húsavík gamall kirkjugarður á brúninni.

Í Breiðuvík fundum við trúlega gamalt bæjarstæði sem var óþekkt. Það eru bara heimildir um tvo bæi þar, Litlu-Vík og Stóru-Vík. Víkurnar, að minnsta kosti Breiðvík og Húsavík, eru sennilega byggðar frá fyrstu tíð þannig þarna gætu verið minjar allt aftur til landnáms.“

Og líkt og áður fyrr var gróið upp á öræfum og þar mögulega stundaður búskapur, þá var líka líflegt á Víknaslóðum sem nú eru í eyði. „Í jarðamati í Múlasýslum frá um 1842 er Húsavík verðmætasta jörðin, en undir hana fellur öll víkin með Húsavíkurbænum sjálfum og hjáleigunum þremur.“

Í Breiðuvík var meðal annars grafið upp við skála Ferðafélagsins. Mynd: GG