Ánægja með heilsugæslurnar austanlands í nýrri þjónustukönnun

Þjónusta öll er vel yfir meðallagi, aðgengið gott og almennt mikið traust ríkir til þeirra heilsugæslna sem Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) rekur víða á Austurlandi samkvæmt nýrri þjónustukönnun meðal notenda. Hækkar einkunn HSA í flestum flokkum samanborið við sömu könnun fyrir tveimur árum síðan.

Það var fyrirtækið Maskína sem framkvæmdi könnun þessa fyrir Sjúkratryggingar Íslands en hún var gerð um tæplega þriggja mánaða skeið frá október og fram í janúar síðastliðinn. Rúmlega 400 notendur þjónustu heilsugæslustöðva austanlands svöruðu ýmsum spurningum og niðurstaðan sú að ánægja með þjónustu á stöðvum HSA er heilt yfir betri en þjónustan annars staðar í landinu.

Helstu niðurstöðurnar nú sýna að ríflega 74% aðspurðra reyndist mjög ánægð eða ánægð með þá þjónustu sem þeir fengu hjá heilsugæslum HSA, rúmlega 17% sögðu hana í meðallagi en einungis rúm 8% reyndust óánægð eða mjög óánægð. Svipað hlutfall notenda, 70%, sögðust bera mjög mikið eða mikið traust til heilsugæslu á Austurlandi meðan 10% sögðu traustið mjög eða fremur lítið.

Starfsfólk HSA getur verið sérstaklega stolt af sínu samkvæmt könnun Maskínu nú. Hvorki fleiri né færri en rúmlega 90% svarenda sögðu viðmót og framkomu starfsmanna heilsugæslustöðvanna mjög eða fremur gott.

Hængur á

Það seint svo að hvers kyns þjónustu megi ekki bæta. Helstu aðfinnslur notenda heilsugæslna á Austurlandi samkvæmt könnuninni nú varðar helst til langa bið eftir tíma eða þjónustu en 43% svarenda töldu þörf á að stytta þann tíma. Svipað hlutfall notenda taldi brýnt að fá úrbætur í skráningu á fastan heimilislækni og litlu færri, 37%, sögðu of erfitt að fá aðgengi að læknum símleiðis.

Í svörum notendanna kom einmitt í ljós að stór meirihluti bókaði tíma símleiðis á heilsugæslu eða læknisþjónustu. Um 65% þeirra með brýn eða fremur brýn erindi fengu þjónustu samdægurs og í 97% tilvika tókst að sinna öllum sem einhverja þjónustu þurfu á að halda innan einnar viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.