Skip to main content

Stöðfirðingar vanda MAST ekki kveðjurnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. mar 2022 13:33Uppfært 22. mar 2022 14:33

Tæpur þriðjungur heimamanna á Stöðvarfirði galt varhug við þeim hugmyndum Matvælastofnunar (MAST) að veita það leyfi til fiskeldis í firðinum sem nú hefur verið veitt.

Þetta má lesa úr greinargerð MAST vegna leyfisveitingar til handa Fiskeldis Austfjarða vegna eldis á sjö þúsund tonnum af laxfiski en rekstrarleyfið var formlega veitt í byrjun vikunnar og gildir til ársins 2038.

Í greinargerð vegna leyfisveitingarinnar koma fram allar þær athugasemdir sem bárust vegna málsins en auk athugasemda frá sveitarfélaginu sjálfu, Landvernd auk náttúruverndarsamtaka á borð við Laxinn lifi og Icelandic Wildlife Fund, bárust MAST sex mismunandi athugasemdir frá heimafólki auk þess sem 49 einstaklingar ljáðu nöfn sín á undirskriftalista gegn fiskeldishugmyndunum. Fjöldi mótmælenda skjagar þannig nærri að vera þriðjungur skráðra íbúa á staðnum.

Virðingarleysið með ólíkindum

Stefán Ólafsson og Hólmfríður Svava Einarsdóttir, eigendur jarðarinnar Lönd 2 í firðinum, segja virðingarleysið algjört fyrir íbúum svæðisins og megi MAST hafa skömm fyrir að veita slíku brautargengi.

„[...]Með eitt fallegasta útsýni frá þorpi á Íslandi á að troða þessu ógeði beint fyrir framan þessa fallegu mynd. Megið þið hafa skömm fyrir. Það er alveg með ólíkindum virðingarleysið sem Stöðfirðingum er sýnt með þessum yfirgangi. Þarna kemur aðgjörlega óviðkomandi aðili og treður sinni starfsemi án þess að nokkur hagur sé að fyrir Stöðfirðinga.“

Ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur

Ævar Sigdórsson, sem lengi gerði út frá Stöðvarfirði, gerir margháttaðar athugasemdir og ekki síst varðandi slæm áhrif á ferðaþjónustu og þá staðreynd að Norðmenn eiga fiskeldisfyrirtækið sem hér um ræðir.

„[...]Er virkilega þessi þörf fyrir þessi 7 þúsund tonna viðbót, í beinni sjónlínu við þorpsbúa, sem nú eiga ALLT sitt undir ferðamanninum? Er þetta úrslitastundin fyrir norska auðjöfra, að geta rústað fátæku þorpi á Íslandi? Þorpi sem kvótalýður lék grátt, er menn uggðu ekki að sér, og létu frá sér fjöreggið, fullvissir um að kvótinn yrði enn og áfram í þorpinu.“

Verðfellir eignir fólks

Jóhanna Guðný Halldórsdóttir, íbúi í bænum, telur líklegt að verðgildi húsa í fögrum bænum muni hrynja ef af fiskeldi verður.

„Húsið mitt kostar í dag nokkrar milljónir þó það sé bara fínt hús og nýuppgert. En eftir að búið verður að klína þessum hörmungum sem laxeldið er í litla fjörðinn okkar, þá er ég nú ansi hrædd um að ég fái engar millur fyrir það.“

Engin störf á móti lífsgæðarýrnun

Þóra Björk Nikulásdóttir, íbúi í bænum, segir engan vafa leika á lífsgæðarýrnun íbúa þegar laxabúrin verða komin á sinn stað en ekkert komi í staðinn.

„Sárafá, ef nokkur, störf munu verða til á Stöðvarfirði vegna laxeldis þar sem laxinum verður slátrað á Djúpavogi. Ef til vill munu einhverjir Stöðfirðingar vinna á þjónustubátum við laxeldið en hingað til hafa þau störf verið án staðsetningar því um er að ræða skorpuvinnu og fólk einfaldlega getur búið í Reykjavík og unnið svo í törnum á Stöðvarfirði.“