Heimastjórn Djúpavogs ætlar að funda með íbúum
Heimastjórn Djúpavogs hyggst halda sérstakan íbúafund í bænum fljótlega en eftir því hefur verið kallað af hálfu bæjarbúa.
Þetta kemur fram í nýjustu bókun heimastjórnarinnar en fundur fór þar fram í vikunni. Stefnt er að því að opinn fundur með íbúum bæjarins fari fram síðar í þessum mánuði.
Nokkuð hefur borið á gagnrýni á svokallaðar heimastjórnir Múlaþings en þær finnast á Borgarfirði eystri, Seyðisfirði og Djúpavogi. Þeim heimastjórnum var einmitt komið á fót sérstaklega til að gefa röddum fólks í hinum dreifðu byggðum sveitarfélagsins færi á að heyrast og hafa áhrif þó langt sé á milli í þessu stærsta sveitarfélagi landsins að flatarmáli.
Ekki er langt síðan Ester Sigurðardóttir, íbúi Djúpavogs, birti gagnrýnan pistil vegna þessa á vef Austurfréttar. Þar fannst henni töluvert athugavert við að sautján mánuðum eftir kosningu um sameinað sveitarfélag hafi enginn fundur eða kynning farið fram af hálfu heimastjórnarinnar um eitt né neitt í bænum.