Heitavatnslindir í Urriðavatni duga vart lengur en 20 til 30 ár
Haldi sama þróun áfram og verið hefur undanfarin ár er ólíklegt talið að heitavatnslindir undir Urriðavatni dugi lengur til en 20 til 30 ár fram í tímann. Brýnt er að almenningur hugi vel að allri nýtingu sinni á þessari takmörkuðu auðlind.
Sérstakt vinnslueftirlit hefur verið á tveimur borholanna í Urriðavatni síðustu ár en þaðan kemur það heita vatn sem Héraðsbúar og nærsveitarmenn fá gegnum kranann. Í samræmi við fjölgun íbúa á því svæði hefur meðalnotkun á heitu vatni aukist á tiltölulega skömmum tíma úr 58 lítrum á sekúndu upp í 70,5 lítra per sekúndu á sama tíma og hitastig í borholunum lækkar jafnt og þétt. Viðbúið er að hitastigið lækki sérstaklega í holu 8, sem svo er kölluð, en þar hefur kalt vatn lengi verið að blandast því heita. Staðan betri við holu 10 en sú liggur nokkuð dýpra og mun því endast lengur. Ekkert slíkt eftirlit er með borholu 9 en á því fer að verða þörf með tilliti til síaukinnar notkunar.
Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF, segir í sjálfu sér ekkert nýtt í mælingunum nú heldur sýni þær áframhaldandi þróun eins og verið hefur síðari ár.
„Það minnkar sem af er tekið en við búumst við að þessar lindir eigi að duga í allt að 30 árum miðað við hóflegan vöxt. Hvað svo gerist veit enginn en við erum þegar byrjuð að undirbúa frekari leit en þó ekki á þessu sama svæði. Það ferli tekur langan tíma og því ekki ráð nema í tíma sé tekið.“
Aðalsteinn segir mikilvægt að notendur geri sér grein fyrir að heitt vatni sé ekki óþrjótandi auðlind og brýnt sé að nota það eins sparlega og kostur er á heimilum og í fyrirtækjum.
„Það er brýnt að notendur misnoti það ekki að verð á heita vatninu er lágt. Kannski þess vegna bera Íslendingar almennt lítið skynbragð á þeirri miklu orkusóun sem finnst víða eins og til dæmis þá staðreynd að sumir eru að halda hita allan ársins hring í heitum pottum. Fólk fer stundum ekki að hugsa fyrr en það fer að koma við pyngjuna hjá þeim og ég held að enginn óski sér þess að það vopn verði notað til að minnka notkun þegar fram líða stundir.“