Helga ætlar ekki að halda áfram sem bæjarstýra

Helga Jónsdóttir, bæjarstýra í Fjarðabyggð, sækist ekki eftir að verða ráðin aftur í starfið þegar ráðningartímabil hennar rennur út eftir sveitarstjórnarkosningar í vor. Helga tilkynnti þetta á bæjarráðsfundi í morgun. Hún segir dræmar undirtektir ríkisins við Norðfjarðargöng mestu vonbrigðin á starfstímabilinu.

 

ImageÍ bréfi Helgu til bæjarráðsins segir að árin í „þessum öfluga byggðarkjarna“ hafi liðið hratt. Margt hafi áunnist en skuldir, sem stofnað hafi verið til vegna uppbyggingar í sveitarfélaginu, hafi við lok kjörtímabils reynst þyngri baggi en ráð var fyrir gert. Sveitarfélagið standi samt traustum fótum með miklar útflutningstekjur.

Hún segir að við þessi tímamót sé sér efst í huga „einhugur og ósérplægni“ bæjarráðs og stjórnendahóps Fjarðabyggðar. Kröfur og álag á stofnanir og stjórnsýslu sveitarfélagsins hafi aukist, ráðist hafi verið í hagræðingaraðgerðir og farið af stað með ýmis ný verkefni.

Helga segist samt horfa til samskipta við ríkið vegna framkvæmda á þessum vegum í sveitarfélaginu „með blendnum tilfinningum.“

„Mestu vonbrigðin eru að stærsta sameiningarverkefnið, nýju göngin milli Norðfjarðar og Eskifjarðar, er ekki orðið að veruleika. Þór höfum við nýtt hvert tækifæri til þess að leiða ráðamönnum ríkisins fyrir sjónir hversu mikið réttlætismál göngin eru, ekki bara út frá öryggi íbúa og hagsmunum atvinnusvæðisins heldur einnig fyrir sameiningu sveitarfélagsins.“

Helga Jónsdóttir tók við starfi bæjarstýru Fjarðabyggðar haustið 2006.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.