Helgin: Cittaslow-dagar, Ormsteiti og pólsk kvikmyndahátíð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. sep 2023 10:45 • Uppfært 22. sep 2023 14:36
Seinni helgi héraðshátíðarinnar Ormsteitis fer nú í hönd með fjölda viðburða í þéttbýlinu á Egilsstöðum og Fellabæ. Árlegur Cittaslow-dagur er framundan á Djúpavogi en hann er með breyttu sniði. Á Eskifirði er haldin árleg kvikmyndahátíð með pólskum myndum.
Haldið hefur verið upp á Cittaslow-daginn í lok september ár hvert. Hann er hins vegar með breyttu sniði í ár. Þungamiðjan hefur verið markaðsdagur í Löngubúð á sunnudegi. Að þessu sinni er markaður í Löngubúð frá 16-18 á laugardag.
Sunnudagurinn sjálfur verður tekinn undir vinnu í Hálsaskógi, svæði Skógræktarfélags Djúpavogs. Þar urðu miklar skemmdir 25. – 26. september í fyrra, sömu helgi og halda átti Cittaslow-daginn. Til stendur að gera við stíga og hreinsa burtu greinaflækjur. Byrjað verður að vinna klukkan tíu en deginum lýkur svo á stund við varðeld. Kjötsúpa er í boði í hádeginu og dagskrá til að stytta börnum stundir frá klukkan 15. Þess utan má nefna að á laugardagkvöld er karíókí á Löngubúð í tilefni helgarinnar frá klukkan níu.
Seinni helgi Ormsteitis
Á Héraði heldur héraðshátíðin Ormsteiti áfram en hún hófst um síðustu helgi. Líkt og á Djúpavogi verður markaðsdagur með handverksfólki og smáframleiðendum matvæla í Samfélagssmiðjunni eða gamla Blómabæ. Opið er í dag frá 16-20 og síðan laugardag og sunnudag frá 12-17.
Í kvöld er einnig Fellasúpan. Húsráðendur að Lagarfelli 8, Miðfelli 5 og Ullartanga 5 í Fellabæ taka á móti gestum og gangandi. Þá verður Stuðstrætó með lúðrasveit á ferðinni milli þessara húsa, Tehússins og Vök baths frá klukkan 18-21. Í lokaferðunum kemur hann við hjá Valaskjálf þar sem Langi Seli og Skuggarnir spila í kvöld.
Af viðburðum morgunsins má nefna bjórhlaup frá Tehúsinu að Aski sem hefst klukkan 15:00 á morgun en annað kvöld spilar hljómsveitin Fókus, sem vann Músiktilraunir í ár, á Tehúsinu. Lokaatburður helgarinnar er síðan æðruleysismessa í Egilsstaðakirkju klukkan 20:00.
Pólskar kvikmyndir í Valhöll
Árleg kvikmyndahátíð með pólskum myndum verður haldin í Valhöll á Eskifirði. Að vanda eru myndirnar sýndar með pólsku tali en enskum texta og aðgangur ókeypis.
Hátíðin hefst með sýningu myndarinnar „Niebezpieczni dżentelmeni“ eða „Hættulegir herramenn“ klukkan 19:00 á laugardag. Þar segir frá fjórum virtum listamönnum sem vakna morguninn eftir mikinn gleðskap með lík í stofunni og lögregluna á hurðahúninum.
Á hádegi á sunnudag verður sýnt úrval af gömlum pólskum teiknimyndum en klukkan 18:00 er það „Film balkonowy“ eða „Myndin af svölunum“ sem er heimildamynd þar sem tekin eru viðtöl við fólk sem á leið undir ákveðnar svalir íbúðarhúss í Varsjá.
Málað eins og Tryggvi
Barnamenningarhátíðin BRAS heldur áfram. Á morgun laugardag frá 10-12 bjóða Tryggvasafn í Neskaupstað og Menningarstofa Fjarðabyggðar upp á myndlistarsmiðju þar sem börnum og foreldrum býðst að mála myndir og form í anda myndlistarmannsins Tryggva Ólafssonar.
Aðra helgina í röð er síðan framundan bílasýning á Austurlandi þar sem áherslan er á rafbíla. Að þessu sinni verða bílarnir frá Lexus. Þeir verða við Bílaverkstæði Austurlands á Egilsstöðum frá 14-19 í dag, við N1 á Reyðarfirði frá 11-13 á morgun og síðan Safnahúsið í Neskaupstað frá 15-17.
Á Fáskrúðsfirði halda áfram veisluhöld í tilefni af 90 ára afmæli Kaupfélagsins. Á sunnudag frá 10-12 er efnt til krakkaboðs í íþróttahúsinu þar sem fram koma BMX-brós sem sýna listir sínar og halda námskeið.
Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að pólska kvikmyndahátíðin væri föstudag og laugardag. Hún er laugardag og sunnudag.