Helgin: Tugir erlendra listamanna á alþjóðlegri listahátíð á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. maí 2025 15:41 • Uppfært 23. maí 2025 15:42
Árleg listahátíð tímaritsins SLUICE er haldin á Seyðisfirði um helgina í samvinnu við LungA-skólann. Tugir erlendra listamanna leggja leið sína til bæjarins í tengslum við hátíðina. Tvennir tónleikar verða haldnir í Neskaupstað.
SLUICE er alþjóðlegt tímarit sem birtir greinar um og eftir listafólk. Tímaritið hefur einnig staðið fyrir árlegum listahátíðum sem til þessa hafa verið haldnar í borgum eins og London, Lissabon, New York og Berlín en er að þessu sinni valinn staður á Seyðisfirði, sem er langminnsti staðurinn sem hýst hefur hátíðina.
Sýningin á Seyðisfirði sem kallast „World Building“ eða „Heimsbyggingin“ er haldin í samvinnu við LungA-skólann. Skólastjórinn, Mark Rohtmaa-Jackson hefur tekið þátt í starfi SLUICE og skólinn hefur birt greinar í tímaritinu.
Mark er annar sýningarstjóranna en hinn er Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá LungA-skólanum. „Það er mikils virði fyrir Seyðisfjörð að halda þessa hátíð. Það eru tugir listamanna sem koma hingað í tengslum við hana til að sýna eða tengjast fólki á staðnum,“ segir hún.
Gæsin hennar Heiðdísar
Hátíðin opnaði í gær í listarýminu Heima með sýningu frá starfsfólki skólans sem hverfist utan um skúlptúr eftir Heiðdísi. „Skúlptúrinn er gæs sem upphaflega var gerð fyrir Listasafnið á Akureyri í fyrra. Hún var þá sjö metra löng en ég náði að stytta hana.
Við notum gæsina sem myndmál fyrir skólann. Við vinnum með að í langflugi geta gæsir sofið, þannig að annað heilahvelið hvílist en hitt vakir. Það eru merki um að mannfólkið geri þetta líka, við þekkjum þetta af því að sofa í óöryggi eða á nýjum stað.
Við báðum þess vegna starfsfólk skólans að sofa á nýjum stað í byrjun maí og það sendi okkur verk út frá upplifun sinni sem raðast í kringum gæsina þar sem hún hangir niður úr loftinu,“ segir Heiðdís.
Sýningar hátíðarinnar eru annars víða í bænum, meðal annars í Netagerðinni, Herðubreið, kirkjunni og á Tækniminjasafninu. Þá fylgir hátíðinni í fyrsta sinn lítil kvikmyndahátíð sem verður í Herðubíói.
Kveðjutónleikar DDT skordýraeiturs
Norðfirska pönksveitin DDT skordýraeitur heldur kveðjutónleika í Tónspili annað kvöld klukkan 21:00. Þáttaskil eru framundan hjá sveitinni þar sem einn liðsmanna hennar er að flytja úr landi og annar að færa sig úr fjórðungnum, að minnsta kosti tímabundið.
Í kvöld klukkan 21:00 koma þar fram tveir ungir norðfirskir tónlistarmenn, Eva Björg Sigurjónsdóttir og Júlíus Óli Jacobsen. Júlíus Óli hefur komið við sögu í ýmsum tónlistarflutningi í bænum en Eva Björg er söngkennari við Tónlistarskóla Fjarðabyggðar.
Tess Rivarola les úr bók sinni: „Líf – sjö gátur í fjölbreytileika“ í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun. Bókin er hlutur af alþjóðlegu verkefni sem snýst um að vekja athygli á sögum minnihlutahópa. Lesið verður á spænsku og íslensku. Eftir lesturinn verður börnum boðið að búa til og teikna eigin bátur eftir innblástur bókarinnar.