Hellisheiðin með besta móti
Leiðin yfir Hellisheiði eystri, milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs, er með besta móti um þessar mundir eftir að möl var borin ofan í veginn.„Vegurinn var orðinn grófur og leiðinlegur. Það er eilífðarverkefni að halda veginum við. Við náðum ekki að koma þessu við í fyrra en gerðum það núna,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi.
Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni fara að meðaltali 50 bílar yfir Hellisheiðina á dag yfir sumartímann. „Þetta er skemmtilegur ferðamannavegur með stórkostlegu útsýni,“ segir Sveinn.
Margir hafa nýtt sér endurbæturnar á veginum og áttu þær eflaust sinn þátt í góðri aðsókn á bæjarhátíðina Vopnaskak. Mikilvægi vegarins hefur þó minnkað eftir að nýr vegur með slitlagi var lagður yfir Vopnafjarðarheiði árið 2013. Hellisheiðin er því lokuð yfir vetrartímann.