Skip to main content

Héraðsverk átti lægsta boðið í snjóflóðavarnir í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. apr 2024 16:47Uppfært 18. apr 2024 18:21

Héraðsverk átti lægra boðið af tveimur í gerð snjóflóðavarnagarða undir Nes- og Bakkagiljum í Neskaupstað. Tilboð voru opnuð í gær.


Tilboð Héraðsverks var tæplega 105 milljónum lægra en hitt boðið frá Gröfu og grjóti. Héraðsverk bauð tæpa 3,2 milljarða en Grafa og grjót tæpa 3,3.

Ríkiskaup héldu utan um útboðið fyrir hönd Fjarðabyggðar sem fær fjármagn frá íslenska ríkinu í gegnum Ofanflóðasjóð.

Enn er þó eftir að meta tilboðin og forsendur þeirra áður en gengið verður frá samningum við verktaka. Héraðsverk vinnur nú að snjóflóðavörnum í Seyðisfirði en gerði einnig eldri varnir ofan Neskaupstaðar.

Í síðasta mánuði var opnað tilboð í jarðvegsstyrkingar vegna varnarmannvirkjanna. Þar barst eitt tilboð frá Reinforced Earth Company Ltd., upp á tæpar 550 milljónir króna.

Uppistaðan í vörnunum er 730 metra langur þvergarður, um 20 metra hár. Í hann þarf um 600.000 rúmmetra af efni. Síðan bætast við tvær keiluraðir með níu keilum í efri röð og ellefu í neðri. Þær þurfa um 160.000 rúmmetra. Þær eru síðast áfanginn í gerð varnarmannvirkja fyrir íbúabyggðina í Neskaupstað.

Gert er ráð fyrir að varnirnar verði tilbúnar haustið 2029.

Mynd: Landmótun