Hestamenn mótmæla takmörkunum á hestaumferð í Vatnajökulsþjóðgarði

ImageLandssamband hestamanna mótmælir því að banna eigi umferð um Vonarskarð innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þau gera verulegar athugasemdir við takmarkanir á hestaumferð í þjóðgarðinum.

 

„Ríðandi umferð fetar ekki framar í fótspor Bárðar um Bárðargötu í Vonarskarði, og ellefu alda saga Bárðargötu þar með yfirstrikuð, hér skal eingöngu gangandi umferð leyfð. Hér er stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að gera mikil mistök og er þessum gjörningi mótmælt,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Hestaumferð er leyfð á þeim vegum og slóðum innan þjóðgarðsins þar sem almenn umferð er leyfð vélknúnum ökutækjum auk skilgreindra reiðleiða.
„Það er erfitt að sætta sig við að hestaumferð sé sett í flokk með vélknúnum ökutækjum og megi helst ekki annars staðar vera en á akvegum.  Fagna ber þó því að stefnt skuli að fjölgun áningastaða við skilgreindar reiðleiðir.“

Þá gagnrýnir sambandið að ekki hafi fyrr verið leitað samráðs við samtök hestamanna um samningu reglugerðarinnar.

Fjöldi annarra útivistarsamtaka hefur mótmælt lokun Vonarskarðs og um helgina stendur til að koma þar upp fimm metra háum krossi til minningar um ferðalög um skarðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.