Skip to main content

Hestar með ferðafólki fældust þegar eldingu laust niður skammt frá þeim

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. júl 2025 14:09Uppfært 08. júl 2025 14:09

Mildi er að engin slys hafi orðið á fólki þegar eldingu laust niður skammt frá hópi á ferð um Héraðssand fyrir rúmri viku. Leiðsögumaður hópsins segir að fyrst allt fór vel þá hafi verið hægt að hafa gaman af ævintýrinu.


„Við höfum oft upplifað þrumur og eldingar en aldrei jafn nálægt. Við sáum þegar eldingunni laust niður fyrir framan okkur. Vanalega telur maður tímann sem líður milli þess að elding sést og þruma heyrist til að átta sig á hversu nærri eldingin sé en þarna sáum við blossann og heyrðum þrumuna á sama tíma, sem staðfestir að hún var nálægt.“

Þetta segir Angelika Liebermeister sem gerir út hestaferðir frá Geirastöðum í Hróarstungu. Því má halda til haga að þumalputtareglan er að ef þrjár sekúndur líði milli heyranlegrar þrumu og sjáanlegrar eldingar sé eldingin 1 km í burtu.

Föstudaginn 27. júní var Angelika á ferð með 11 ferðamenn og 25 hesta yfir Héraðssand. Hópurinn hélt af stað frá Gagnstöð, yst á sunnanverðum sandinum í ferð um sandinn yfir í Hól, nokkru norðar, alls um 23 km leið. Hópurinn var að komast á afleggjara sem liggur í áttina að Hóli og átti um klukkutíma reið eftir þegar eldingunni laust niður.

Þetta var síðasti dagurinn í nokkurra daga ferð um Borgarfjörð og Víknaslóðir og átti að vera þægileg dagleið. „Ég átti afmæli þennan dag. Þetta var dásamlegur dagur, loksins gott veður. Eftir túrinn ætluðum við í Vök og þaðan á tónleika.“

Sandurinn mildaði höggið


En dagurinn tók óvænta stefnu. Hestarnir fældust við eldinguna þannig að flestir knaparnir duttu af baki og þurftu að sleppa hestunum. Angelika segir lán í óláni að hópurinn hafi verið úti á sandinum þegar atvikið gerðist.

„Það var mjúkt að falla í sandinn. Þess vegna er enginn knapanna alvarlega slasaður. Það hefði getað farið illa á öðrum stað. Það er líka heppni að eldingunni hafi ekki lostið niður í okkur því við vorum einn hæsti punkturinn á sandinum. Ég hefði aldrei lagt út á hann ef ég hefði átt von á þrumum og eldingum.“

Fram á nótt að ná hestunum


Atvikið varð um klukkan fjögur síðdegis. Reiðtúrinn breyttist fyrst í mikla gönguferð því fólkið þurfti að labba til baka frá þeim stað sem það datt af baki, um 4 km frá Hól. Ferðafólkið náði á tónleikana en aðstandendanna ferðarinnar beið eltingaleikur fram á miðja nótt við að ná hestunum sem hlupu allt inn að Lagarfossvirkjun. Þrír þeirra meiddust í atganginum, einn er hann fór í gegnum pípuhlið, en tveir skárust í munni undan reiðtygjunum. Þeir eru ekki alvarlega meiddir og eiga að ná sér að fullu. Þá skemmdist búnaður.

Eldingin virðist hafa verið einangruð og átti sér engan aðdraganda. „Erlendis skynjar maður oft að þrumuveður sé í nánd. Andrúmsloftið breytist. Það var ekkert þannig. Þetta var líka bara þessi eina elding. Í kjölfarið á henni kom hellidemba og svo ekki meir, aftur fínasta veður,“ segir Angelika og bætir við að hún hafi aðeins einu sinni upplifað þrumuveður á Íslandi síðan hún flutti til landsins árið 2008.

Hún segir mest um vert að engin alvarleg slys hafi orðið, hvorki á fólki né hestum. Þegar frá líði stundir verði atviksins trúlega minnst sem eftirminnilegs ævintýris.

Hópurinn á Héraðssandi um klukkustund fyrir atvikið. Mynd: Ulla Grande