Heyrist segja „ég ætlaði að kála henni“ á upptöku úr öryggismyndavél
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. maí 2025 18:54 • Uppfært 07. maí 2025 18:57
Jón Þór Dagbjartsson, sem ákærður er fyrir að hafa reynt að ráða Hafdísi Báru Óskarsdóttur af dögum í skemmu við bæinn Hámundastaði IV í Vopnafirði í október. Jón Þór ber við minnisleysi og geðlæknir segir hann hafa glímt við áfallastreitu sem framkallað geti slíkt. Hafdís Bára lýsti langvarandi ofbeldi af hans hálfu.
Aðalmeðferð hófst í málinu fyrir Héraðsdómi Austurlands í dag. Ákæran er í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi er Jóni gefið að sök að hafa farið inn á heimili Hafdísar Báru í leyfisleysi og áreitt hana kynferðislega að kvöldi sunnudagsins 13. október. Í öðru lagi að hafa miðvikudaginn 16. október ráðist á hana í skemmu með járnkarli, fyrst reynt að stinga hana og síðan kyrkja.
Í þriðja lagi er hann sagður hafa ráðist á annan mann á Vopnafirði í nóvember 2023. Að lokum er hann sakaður um að hafa haft í fórum sínum óskráð skotvopn sem ekki voru geymd samkvæmt lögum. Lögregla tók vopnin af heimili hans um það leyti.
Taldi Hafdísi hafa ekki hafa komið hreint fram við sig
Jón Þór kom fyrstur fyrir dóminn í morgun. Varðandi atvikið á sunnudagskvöldinu hélt hann því fram að þau Hafdís Bára hefðu endanlega slitið samvistum eftir um tíu ár samband 2-3 vikum fyrr. Hann hélt því fram að hann hefði samt ítrekað fengið að koma inn á heimili hennar til að huga að börnum þeirra og gætt þeirra þegar Hafdís hefði verið fjarverandi. Þá hefðu þau stundað kynlíf þrátt fyrir slitin, síðast kvöldið áður en hún fór að heiman á tveggja daga ráðstefnu.
Hann sagðist hafa séð þungunarpróf í ruslinu og reiðst því hann hefði talið Hafdísi Báru hafa svikið samkomulag þeirra um að koma heiðarlega fram og láta vita þegar þau færu að hitta annað fólk. Það hefði hann viljað ræða við hana sem og að hann væri að flytja af svæðinu en hún brugðist illa við, kallað sig illum nöfnum og hent sér út.
Hann hefði samt grunað í nokkra mánuði að hún væri farin að hitta aðra og hún síðar hótað því að annar maður myndi ala upp son þeirra. Samskipti við hann hefðu verið það eina sem hann hefði viljað halda eftir af búi þeirra eftir skilnaðinn. Samtal við barnaverndarfulltrúa sem ræddi nálgunarbann eftir atvikið hefði gert hann mjög reiðan því hann hefði ekki fengið að koma sinni hlið á framfæri. Hann hefði þó virt það dagana á eftir að halda sig frá Hafdísi.
Sagði Hjalteyrarmálið hafa ýft upp sárar minningar
Jón Þór kannaðist við að sambandið hefði stormasamt en harðneitaði að hafa nokkurn tíma lagt hendur á Hafdísi. Hann kvaðst ekki skilja hvers vegna Hafdís Bára hefði sett upp öryggismyndavélar og hún talið hann ógna öryggi sínu.
Jón Þór talaði um fortíð sína, hvernig hann hefði sem barn verið beittur mjög grófu ofbeldi á unglingaheimili á Hjalteyri. Hann hefði verið búinn að loka á þær minningar þar til byrjað var að fjalla um málið í fjölmiðlum árið 2022. Í kjölfarið hefði hann fengið martraðir og óminnisköst og dregið sig inn í skelina.
Um árásina nokkrum dögum síðar sagðist Jón Þór að Hafdís Bára hefði sent sér fingurinn þegar hún fór út í skemmuna. Síðan hefði hann séð hana henda verðmætum tækjum út í drullusvaðið. Hann hafi farið til að biðja hana að hætta því og elt hana inn í skemmuna þangað sem hún fór að sækja fleiri hluti. Þar hafi hún ýtt við honum og sagt að koma sér út, enda haft nægan tíma til að tæma skemmuna.
Endurtekin óminnisköst
Við hótun um að hann fengi ekki að sjá son sinn detti minnið út. Eftir það séu minningar í myndbrotum og þoku. Hann rámi í að hafa setið ofan á henni með járnkarlinn, þau bæði grátið og hann sagt hvert þetta hafi leitt þau. Hann rámi í að hafa labbað út og séð vinkonu Hafdísar koma. Eins muni hann eftir sér í sínu húsi á Hámundastöðum V og samskiptum við lögreglu. Hann ranki almennilega við sér í lögreglubíl á leið upp Vopnafjarðarheiði áleiðis í Egilsstaði.
Saksóknari þráspurði Jón Þór út í hvað hann myndi og Jón Þór svaraði að hann myndi atburðina ekki með vissu frá því sem hann taldi hótun um að forræðið yrði tekið af honum þar til hann sé á leið í Egilsstaði. Hann mundi ekki eftir að hafa talað við vinkonu Hafdísar né komið aftur að skemmunni eftir að hann fór frá henni.
Jón Þór sagðist áður hafa fengið slíkt óminni í kjölfar dvalarinnar á Hjalteyri og þegar þær minningar fóru að rifjast upp aftur. Hann lýsti því að köstin reyndu á hann líkamlega og hann væri eftir sig að þeim loknum. Hann talaði einnig um að í fangelsinu á Hólmsheiði, þar sem hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í október, hafi uppgötvast að hann hefði óvenju háan blóðþrýsting. Vikur hefði tekið að ná honum niður.
Harðneitaði að hafa ætlað að ráða Hafdísi Báru af dögum
Jón Þór sagði líka að fyrst eftir komuna í fangelsið hefði hann verið mjög langt niðri andlega og talið það bestu lausnina fyrir alla að hann dæi. Hann væri núna kominn á betri stað og væri að vinna úr sínum áföllum. Hann hefði ekki farið í óminnisástand eftir að blóðþrýstingurinn lækkaði. Hann ræddi líka um hvað hann gerði til að aðstoða aðra fanga.
Jón Þór bar einnig við minnisleysi þegar hann var spurður út í orð sín við fyrstu yfirheyrslur um að hann hafi misst stjórn á sér í deilum við Hafdísi Báru og að síðara atvikið hefði verið alvarlegt. Hann harðneitaði að hafa ætlað að bana henni.
Gekk erfiðlega að fá vopnin skráð
Sem fyrr segir var Jón Þór einnig ákærður fyrir að hafa ráðist að manni á Vopnafirði í nóvember og slegið hann ítrekað með kókdós í andlitið þannig maðurinn fékk mikla áverka. Jón Þór hafnaði því afdráttarlaust í fyrstu, en dró síðan í land þegar tilvitnanir úr fyrri skýrslutökum og benti á að nokkuð væri um liðið. Hann hafnaði því þó að maðurinn hefði verið með þá áverka eftir að viðskiptum þeirra lauk og gagnrýndi rannsókn málsins. Mönnunum laust saman þegar Jón Þór fór að sækja muni sem hann taldi sig eiga í húsnæði mannsins.
Vopnin útskýrði Jón Þór á þann hátt að um væri að ræða safn sem hann hefði erft. Hann hefði unnið í því að koma þeim á skrá en gengið hægt vegna tregðu í kerfinu. Lögreglumönnum á Vopnafirði hefði hins vegar verið fullkunnugt um að þau væri á heimili hans og ekki geymd samkvæmt lögum. Jón Þór sagði þau hafa flest verið óvirk vegna bilana eða það gömul að erfitt væri að fá skot. Þau hefði hann ekki átt. Frásögn hans um tilraunir til að skrá vopnin var að hluta til studd í vitnisburði lögreglumanns frá Vopnafirði sem kom síðar fyrir dóminn.
Jón Þór ekki hlustað á að sambandinu væri lokið
Hafdís Bára kom næst fyrir dóminn. Jón Þór vék úr dómsal á meðan samkvæmt úrskurði Landsréttar frá í síðasta mánuði. Óhætt er að segja að hennar framburður – og reyndar flestra annarra vitna sem komu fyrir dóminn í dag, hafi verið töluvert frábrugðinn frásögn Jóns. Hún sagði til dæmis að óléttuprófið hefði verið í ruslapoka sem bundið var fyrri ofan í ruslatunnunni. Það að Jón hefði birst með það sýndi að hann hefði verið að róta í ruslinu hjá henni.
Hún sagði einnig frá því að sambúð þeirra hefði lok í mars í fyrra og hún ítrekað gert Jóni Þór grein fyrir að það væri endanleg ákvörðun. Hún hefði þó lagt sig fram um að reyna að hafa samskipti þeirra á góðu nótunum í þágu sonar þeirra. Þannig hefði hann fengið að vera á heimili þeirra síðasta sumar meðan hún var fjærri í vinnu en átt að nota tímann til að flytja. Það hafi hann ekki gert. Hún sagði orðum aukið að Jón Þór hefði iðulega komið á morgnana eftir skilnaðinn og aðstoðað við að morgna börn þeirra, en hún hefði leyft það í örfá skipti.
Hafdís Bára lýsti erfiðleikum í sambandi þeirra, hvernig Jón Þór hefði verið í samskiptum við aðra konu þegar hún var ólétt og hvernig henni hefði fundist það niðurlægjandi. Hún ræddi líka skapofsaköst Jóns, sem hún sagði hafa ágerst 2022, eftir eitt besta tímabilið í þeirra sambandi. Aðspurð seint í framburði sínu játaði hún að það hefði verið um svipað leyti og Hjalteyrarmálið kom fram í fjölmiðlum. Hann hefði hins vegar sýnt af sér mikla afbrigðissemi og niðurlægt ítrekað með orðum.
Hann hefði einnig ítrekað þrýst á um kynlíf og hún látið undan. Stundum hefði verið betra að láta undan því heldur en hætta á eitthvað annað. Hún lýsti tilviki eftir skilnaðinn þar sem hún hefði sofið í öðru herbergi með strákinn við hlið sér í von um að það hefði fælingarmátt en ekki dugað til. Í slíkum tilfellum frjósi fólk.
Hún sagði að í gegnum samband þeirra hefðu vinir hennar ítrekað reynt að benda henni á óheilbrigði sambandsins þegar hún hefði hringt í þá grátandi. Sjálf hefði hún farið í það hlutverk að reyna að hjálpa Jóni rétta leið til að fást við sín mál.
Eftir atvikið 13. október kom vinkona Hafdísar til að vera hjá henni og veita henni öryggi. Vinur hennar setti einnig upp öryggismyndavél við hús hennar.
Var rólegur við verknaðinn
Um atburðina 16. október sagðist Hafdís Bára hafa verið ásamt vini sínum á fjórhjóli að reyna að smala kindum niðri í fjöru. Þau hefðu farið saman heim á hjólinu og hún beðið hann um að setja sig af við skemmuna. Hún hafi verið orðin þreytt og pirruð, sent Jóni Þóri fingurinn enda sannfærð um að hann væri að fylgjast með en síðan byrjað að henda út úr skemmunni.
Hann hefði komið hefði komið stuttu síða, óvenju rólegan. Hún sagðist ekki muna orðaskipti þeirra nákvæmlega, nema hún hefði reynt að ræða að tími væri kominn til að „klára þetta“ og meinti þar skilnaðinn. Hún hefði rætt framtíð drengjanna, en aldrei nefnt annan uppalanda og aldrei hótað því að neita Jóni umgengni. Ef svo hefði verið þá hefði hún lokað heimilinu alveg fyrir honum löngu fyrr.
Hafdís sagði að Jón Þór hefði síðan síðan rólegur teygt í járnkarlinn, fyrst reynt að stinga hana í kviðinn og hún varið sig en fallið og hann endað ofan á henni þar sem hann þrengdi að hálsi hennar. Hún hafi í fyrstu reynt að öskra á hjálp en síðar reynt að höfða til skynsemi Jóns og fá hann til að hugsa um börnin. Það hafi engu virst skipta. Þegar hún hafi sagt að hann væri að drepa sig hafi svarið blákalt verið „já, ég ætla að drepa þig“ og verið með „háðslegt glott.“ Hún sagðist ekki vita hvað varð til þess að hann hætti, en hún hefði strax í kjölfarið séð vinkonu sína koma hlaupandi. Sú hefði síðan þurft að varna Jóni inngöngu aftur í skemmuna.
Hafdís lýsti því að hún hefði misst mátt í hægri handlegg vegna taugaskaða í árásinni en hann væri að koma aftur. Hún sagði að hún glímdi enn við andlega erfiðleika eftir árásina, en þeir væru minni svo lengi sem hún vissi hvar Jón Þór væri, það er í fangelsi.
Hafdís sagði öðruvísi frá ýmsu sem Jón hafði talað um áður. Hann hélt því fram að hún hefði rifist við vin sinn sem var með henni að smala en því harðneitaði hún og sömuleiðis vinurinn þegar hann kom síðar fyrir dóminn sem vitni. Þá sagðist Jón hafa verið í Þýskalandi í mars í fyrra í vinnu en Hafdís sagði hann þá hafa verið á Norðfirði og ekki farið til Þýskalands fyrr en snemma um sumarið.
Vinkonan hélt að Hafdís væri dáin
Vinurinn og vinkonan komu næst fyrir dóminn. Framburður þeirra var í lykilatriðum samhljóma frásögn Hafdísar. Vinkonan sagði frá því að hún hefði reynt að drífa sig út þegar hún hefði séð Jón Þór æða inn í skemmuna en jafnframt hringt í Neyðarlínuna. Sú er einnig gömul vinkona Jóns. Hún sagðist ekki hafa verið hrædd við hann sjálf en vissulega að hann myndi skaða aðra. Vinkonan kvaðst í þó nokkurn tíma á undan hafa reynt að tala um fyrir Jóni og fá hann til að sætta sig við að sambandinu væri lokið og ganga frá því með reisn. Hún hefði verið haldin ótta um að eitthvað gerðist, þó aldrei í líkingu við þetta.
Hún sagði frá því hvernig Jón Þór hefði farið frá skemmunni en komið svo aftur og reynt að komast inn en hún varnað honum inngöngu. Hann hefði verið æstur í fyrstu en síðan róast. Það hafi í raun gert hana órólegri, hann hafi virst kaldur.
Vinkonan skýrði einnig frá því að hún hefði haldið að Hafdís væri dáin þegar hún sá hana fyrst liggjandi á bakinu á skemmugólfinu. Fyrst á eftir hafi verið erfitt að ná við hana sambandi, Hafdís hefði mest umlað en þó sagt „beinskeytt“ frá því að Jón hafði ráðist á hana með járnkarlinum og talað um að drepa hana.
Vinkonan sagði Jón Þór einnig hafa talað við sig um að ætla að kála Hafdísi. Hann hafi síðan skipt um skoðun, sagst ekki hafa ætlað alveg að kála henni því hann elskaði hana. Lögreglumaður sem kom fyrir dóminn síðar sagði að á upptöku úr öryggismyndavélinni heyrðist Jón Þór segja við vinkonuna: „Ég ætla að segja þér það, ég ætlaði að kála henni.“
Barnaverndarfulltrúi taldi Jón Þór hættulegan
Barnaverndarfulltrúi sem kom á Vopnafjörð sunnudaginn 13. október sagðist hafa metið frásögn Hafdísar Báru það kvöld trúverðuga. Hún lýsti því að margt í hennar tali, að hún gerði lítið úr atvikum til að vernda börn sín, frysi og léti hluti yfir sig ganga, væri dæmigert fyrir konur í löngum ofbeldissamböndum.
Eftir lokinni vettvangsferð hefði hún kynnt Jóni Þór þá lausn að hann héldi sig frá Hafdísi Báru og börnum hennar í einhvern tíma. Hann hefði hins vegar verið fastur í eigin hagsmunum, reið og lygi. Hún hefði því metið hann mjög hættulegan og farið að vinna að því að Hafdís færi að minnsta kosti tímabundið út í þorpið á Vopnafirði því viðbragðstíminn fyrir lögreglu út í Hámundastaði væri langur.
Barnaverndarfulltrúinn sagðist hafa viðrað áhyggjur sínar við lögregluna sem ekki hefði tekið undir hana, viljað reyna svokallaða Selfossleið áður en farið yrði fram á nálgunarbann. Hún hafi því farið fram á bannið sjálf af prinsippástæðu, þótt hún vissi að það skilaði engu.
Geðlæknir telur lýsingar á óminni trúverðugar
Síðasta vitni dagsins var geðlæknir sem vann mat á Jóni Þór að beiðni verjanda hans. Hún staðfesti frásögn Jóns um að tíma hefði tekið að ná stöðugleika í líðan hans eftir komuna í fangelsið, hvernig tekist hefði verið á við blóðþrýstinginn og erfiðar minningar af eldri áföllum.
Hún sagðist telja Jón Þór glíma við alvarlega áfallastreituröskum. Slíkt fólk eigi erfitt með að stjórna tilfinningum sínum sem birtist í reiði og óminni eða hugrofi þar sem slokkni á ákveðnum stöðvum heilans þannig viðkomandi nemur ekki það sem er að gerast. Geðlæknirinn kvaðst meta frásagnir Jóns Þórs af óminningu trúverðugar.
Hún sagði blóðþrýstinginn ekki hafa verið rótina að vandanum en eina orsökina. Andleg líðan Jóns hefði farið batnandi eftir að þrýstingurinn lækkaði. Læknirinn var spurður hvort háþrýstingur geti valdið óminnisástandi. Svarið var að það væri ekki þekkt við hugrof heldur ýtti undir kvíða og áfallastreitu.
Læknirinn sagði ómögulegt að meta batahorfur Jóns, aldrei væri hægt að segja til um árangur fyrirfram, en hann væri viljugur til að vinna úr sinni flóknu áfallastreitu sem byggðist á mörgum atvikum. Þekkt sé að hún geti gert náin samskipti eldfim. Meðferð hjálpi fólki yfirleitt að ná stjórn á tilfinningum sínum.
Dómurinn er fjölskipaður, í honum sitja tveir héraðsdómarar og geðlæknir sem sérfróður meðdómari. Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun. Gert er ráð fyrir að henni ljúki á föstudag með málflutningi verjanda, saksóknara og réttargæslumanns.