Hinsta sigling Jóns Kjartanssonar undirbúin

Dráttarbátur er kominn til Reyðarfjarðar til að draga Jón Kjartansson SU-311 til Danmerkur. Þar mun sögu skipsins ljúka því hann hefur verið seldur í brotajárn.

„Þetta er ekki endapunkturinn sem við vildum. Það hefði verið betra að selja hann til einhvers sem hefði gefið honum framhaldslíf en það gekk ekki,“ segir Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Esku.

Dráttarbáturinn Grettir sterkir kom til Reyðarfjarðar í gær. Verið er að undirbúa brottför skipanna og reiknað með að það geti jafnvel orðið í kvöld eða í fyrramálið. Það hefur staðið til síðan um áramót en ekki verið hægt vegna veðurs.

Jón Kjartansson var smíðaður árið 1978 og hét upphaflega Eldborg HF. Hann var keyptur til Eskifjarðar árið 1988 og fékk nafnið Hólmaborg. Árið 2006 var því breytt í Jón Kjartansson.

Skipið hefur verið til sölu undanfarin ár en Eskja fékk nýjan Jón Kjartansson sumarið 2017. Jón Kjartansson SU-311 landaði síðast í maí 2019.

Ferð dráttarbátsins austur gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Seint á föstudagskvöld kom upp bilun þannig hann fékk á sig sjó. Þyrla og skip Landhelgisgæslunnar fluttu dælur í borð áður en honum var fylgt til Vestmannaeyja. Þaðan hélt hann áfram för sinni um klukkan fimm síðdegis á laugardag og var kominn austur um klukkan tvö í gær.

Skipin tvö teljast nú ferðbúin og bíða eftir tækifæri til að fara af stað. Siglingunni er heitið til Esbjerg í Danmörku.

Mynd: Jón Knútur


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.