Skip to main content

Hitabylgjan á Austurlandi varir fram yfir helgi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. jún 2023 09:50Uppfært 15. jún 2023 09:53

Sólarunnendur geta glaðst yfir að ekki sjást merki þess að hitabylgjan á Austurlandi sé í rénun fyrr en eftir helgina. Spáð er yfir 20 stiga hita fram á þriðjudaginn kemur þegar Veðurstofa Íslands á von á lítils háttar skúrum.

Hæsta hitastig í dag fimmtudag á að ná 22 stigum eftir hádegið á Héraði miðað við nýjust spá Veðurstofunnar. Hitinn nær einnig 21 stigi á morgun föstudag en toppnum verður náð á laugardaginn kemur þegar fræðingar gera ráð fyrir að mælar nái allt upp í 24 stig. Tuttugu stigum verður einnig náð á sunnu- og mánudag.

Blæðingar á vegum

Hitarnir síðustu vikur eru farnir að setja mark sitt á vegakerfið. Vegagerðin segir að þegar hafi orðið vart við blæðingar í slitlagi norðaustanlands og ökumenn hvattir til að gæta sín á slíku á ferð sinni og stilla hraða í hóf. Lögreglan á Austurlandi bendir ökumönnum jafnframt á að sólgleraugu sé þarfaþing við aðstæður eins og þær sem verið hafa að undanförnu.

Eldhætta stóraukist vegna þurrka

Skógræktin telur fulla ástæðu til að hvetja fólk til að fara varlega með eld í skógum eða gróðurlendi í þessari þurrkatíð. Fyrir utan vætu í nokkrar klukkustundir á laugardaginn var hefur ekkert rignt á Austurlandi um margra vikna skeið. Litlu mátti muna í Hallormsstað í síðustu viku þegar þar var kveikt í lerkitré en eldurinn náði ekki að breiðast út. Það þarf þó lítt annað en vindgust til að gera bál úr litlum eldi og vill stofnunin ítreka fyrir fólki að nota eingöngu tilbúin eldstæði eða eldaskála á útivistarsvæðum.