Heilbrigðisstofnun Austurlands vel undirbúin fyrir helgina
Þó oft sé fjöldi gesta á Austurlandi að sumarlagi er ekki oft sem þarf að gera sérstakar ráðstafanir vegna tíu þúsund gesta á Egilsstöðum vegna Unglingalandsmóts né heldur fjölda aðkomufólks á Neistaflugshátíðinni í Neskaupstað. Það er raunin þessa helgina og hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hafa menn undirbúið sig eins og best verður á kosið.
Púslin eru flest að falla Austurlandi í vil hvað varðar að trekkja að gesti annars staðar frá yfir Verslunarmannahelgina. Lykilþáttur þar auðvitað veðurspáin sem á þessari stundu er allra best austan- og norðaustanlands fram á mánudaginn kemur. Það engin tilviljun að meirihluti tjaldsvæðaplássa bæði á Egilsstöðum og víðar eru þegar upptekin og nokkuð stríður bílastraumur hefur verið austur á land í gær og það sem af er degi samkvæmt mælum Vegagerðarinnar.
Undirbúningur undir Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands hefur gengið vel og allt verður til reiðu á Egilsstöðum þó enn sé óskað aðstoðar fleiri sjálfboðaliða vegna mótsins. Fyrstu keppnisgreinarnar hefjast í dag með golfmóti á Ekkjufellsvelli og í kjölfarið Krakkahreysti í líkamsræktarstöðinni Austur en meginkeppnisdagar mótsins eru svo föstu-, laugar- og sunnudagurinn.
Heilbrigðisstarfsfók við öllu búið
Ekki er óþekkt að fólk meiði sig eða slasist í íþróttum eða að eitthvað fari úrskeiðis á litlum bletti hjá stórum hópi fólks á þétt settnum tjaldsvæðum. Hjá HSA er heilbrigðisstarfsfólk eins undirbúið og best verður á kosið að sögn Guðjóns Haukssonar framkvæmdastjóra.
„Yfir þennan tíma verðum við með tvær vaktir á sjúkrabílum í stað einnar eins og venjan er sem þýðir að á Egilsstöðum erum við með fólk klárt á báða sjúkrabílana. Það þýðir tvær vaktir í stað einnar þar en að auki erum við með geislafræðinga á vakt líka bæði á Norðfirði og Egilsstöðum. Þá erum við með bakvakt hjúkrunarfræðings og tvær bakvaktir lækna. Við erum sannarlega að reyna að vera við öllu búin þó við sannarlega vonum að ekkert alvarlegt komi upp á.“
Guðjón segir að almennt sé reynslan sú að jafnvel þó það fjölgi fólki töluvert yfir einhvern sérstakan viðburð þýði það ekki endilega meiri annir eða álag á heilbrigðiskerfið.
„Gestir sem sækja mót eins og Unglingalandsmótið er heilt yfir yngra fólk sem er í ágætu formi hvort sem um er að ræða foreldra eða keppendurna. Það hefur sýnt sig að stóraukinn fjöldi á svona móti þýðir ekki endilega að við höfum meira að gera sem verður vonandi raunin hér líka næstu dagana.“
Báðir sjúkrabílarnir á Egilsstöðum verða mannaðir og til taks næstu dagana vegna Unglingalandsmótsins. Mynd HSA