Skip to main content

Hjördís Þóra endurkjörin formaður AFLs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. apr 2025 07:21Uppfært 28. apr 2025 07:26

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir var endurkjörin formaður AFLs starfsgreinafélags á aðalfundi félagsins sem haldinn var á laugardag. Mótframbjóðandinn, Sverrir Kristján Einarsson, kallaði eftir endurskoðun á framkvæmd kjörsins til framtíðar.


Félagssvæði AFLs nær frá Melrakkasléttu niður að Skeiðará. Félagið varð til með sameiningu félaga á þessu svæði árið 2007. Hjördís Þóra hefur verið formaður síðan þá og ekki fengið mótframboð fyrr en nú að Sverrir Kristján, formaður iðnaðarmannadeildar, bauð sig fram gegn henni.

Hjördís Þóra sigraði hins vegar með yfirburðum, fékk 56 atkvæði en Sverrir Kristján níu.

Í ræðu sinni eftir að úrslitin náðu fyrir hvatti Sverrir Kristján til þess að kosningu formanns og stjórnar yrði breytt til framtíðar þannig að kosið yrði rafrænt í stað þess að þurfa aðeins að mæta á fund. Hann sagði að honum hefði reynst erfitt að fá fólk til að mæta á fundinn til að kjósa því fundasókn væru almennt dræm.

Hann þakkaði stuðninginn og sagði ánægjulegt að kjörið hefði verið haldið. Hann situr áfram í stjórn. Í framboðsræðu kallaði hann meðal annars eftir kynslóðaskiptum, auknu samstarfi við önnur verkalýðsfélög í aðdraganda kjarasamninga og launahækkanir sem endurspegli þekkingu, hæfni og ábyrgð með því að hækka í krónum talið fremur en prósentum.

Hjördís Þóra hefur verið formaður verkalýðsfélaga frá árinu 1993 þegar hún tók við keflinu í Jökli á Hornafirði. Hún er einnig í dag formaður Alþýðusambands Íslands. Hún sagði AFL öflugt verkalýðsfélag sem stæði vörð um hag félaga, ekki bara í kjaramálum, heldur ætti líka öflugan sjúkrasjóð og byði upp á fjölbreytta kosti í orlofsmálum.