Skip to main content

Hlutfallslega mest umferðaraukning austanlands síðasta árið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. apr 2022 09:54Uppfært 20. apr 2022 09:56

Hlutfallslega jókst umferðarþungi á hringveginum hvergi meira en hér á Austurlandi síðasta árið samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Stofnunin birti í vikunni nýja skammtímavísa um ferðamannafjölda til og frá landinu en þeir sýna glöggt að fjöldi ferðamanna til landsins er kominn langleiðina í þann fjölda sem hingað kom á svipuðu tímabili áður en Covid-faraldurinn setti strik í reikninginn.

Tölur Hagstofu taka meðal annars mið af umferð um hringveginn og þó heildarfjöldi bifreiða sem aka um hringveginn austanlands sé langt undir því sem gerist annars staðar í landinu er hlutfallsleg aukning bifreiða mest hér. Jókst umferð á austurhluta hringvegarins um 32 prósent frá apríl 2021 til mars 2022 samanborið við sama tímabil árið áður. Frá apríl 2020 til mars 2021 mældust 19.313 ferðir um hringveginn hér austanlands en frá apríl í fyrra til mars í ár mældust ferðirnar alls 25.427.