Hnúfubakar skemmta íbúum og gestum á Borgarfirði eystri
Torfa af hvölum hefur undanfarna daga lónað í sjónum rétt við þorpið á Borgarfirði eystri íbúum og gestum til mikillar gleði. Voru hvalirnir kringum tíu þegar mest var.
Það samdóma álit spekinga að þarna sé um hnúfubaka að ræða og þeir hreint ekki verið feimnir við að leika sér nálægt landi eins og fjölmörg myndbönd og ljósmyndir á samfélagsmiðlum sýna glögglega. Fjöldi gesta er einmitt kominn í þorpið því nú er Bræðsluvikan í fullum gangi.
Friðgerður Ósk Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur, segir komu hvalanna hafa vakið athygli allra í bænum svo um munar en þeir hafa sést daglega frá því um síðustu helgi.
„,Sjálf fór ég þrívegis í göngutúra í gær og sá hvali í öll skiptin. Við töldum eina sjö í gærkvöldi en mér skilst að þeir hafi verið kringum tíu talsins um miðnætti í fyrrakvöld. Ég er engin sérfræðingur í hvölum en karlarnir hérna hafa verið að gúggla þetta og þeir halda að þetta séu allt hnúfubakar þó reyndar það hafi sést til smærri hvala í og með. Það sem er sérstaklega skemmtilegt er hversu nálægt landi þeir hafa komið. Tilfinningin nánast eins og að vera í hvalaskoðunarferð þegar staðið er á bryggjunni hér og manni líður dálítið eins og það séu þeir sem eru að skoða okkur.“
Hnúfubakar ná gjarnan 14 til 16 metra lengd og hver og einn vegur kringum 30 tonn. Hér einn þeirra sem hafa skemmt fólki síðustu dægrin. Mynd Guðrún Ása Jóhannsdóttir