Skip to main content

Hnúfubakur styttir fólki stundirnar í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. júl 2025 14:32Uppfært 08. júl 2025 14:37

Voldugur hnúfubakur hefur stytt íbúum og gestum á bryggjusvæðinu í Neskaupstað stundirnar nú í um sólarhring og margir gert sér ferð til að vitna þennan stóra og óvenjulega gest.

„Fólk segir mér að þeir hafi verið tveir í upphafi en ég hef bara séð þennan eina og hann lætur bara vel um sig fara hérna örstutt frá bryggjunni,“ segir Kristín Hávarðsdóttir, ljósmyndari með meiru, en hún er ein þeirra Norðfirðinga sem hafa eytt miklum tíma við höfnina síðasta sólarhringinn því þar hefur stór og fallegur hnúfubakur verið að njóta lífsins og lætur mannfólkið ekkert trufla.

Kristín segist gróflega halda að hvalurinn sé á milli 10 og 14 metra langur

„Hann er furðu rólegur og syndir hér furðu nálægt ströndu. Það nánast eins og hann sé bara að sóla sig eins og við hin hér enda mikil blíða hér í bæ eins og víðar á Austurlandi. Sjálf var ég hér að fylgjast með honum langt fram eftir nóttu og var fljótt að koma aftur í morgun. Það hafa vissulega sést hér hnúfubakar í firðinum áður en ég persónulega man ekki eftir neinum sem er svona nálægt bryggjusvæðinu og lætur sig athyglina engu varða. Hann hefur núna síðustu stundirnar verið að dúlla sér í bræðsluhluta bryggjusvæðisins og sýnir ekki á sér neitt fararsnið.“

Hvalurinn aðeins metrum frá bryggjunni en virðist kunna vel við sig þar því ekkert er fararsniðið. Mynd Kristín Hávarðardóttir