Skip to main content

Höfnuðu áskorun Landverndar vegna vindorkuvers við Klaustursel

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. sep 2023 10:13Uppfært 20. sep 2023 10:18

Rétt tæplega sex þúsund einstaklingar skrifuðu undir áskorun Landverndar á sveitarstjórn Múlaþings þess efnis að hafna alfarið öllum hugmyndum norska fyrirtækisins Zephyr um byggingu allt að hundrað vindmylla í landi Klaustursels í Efri-Jökuldal.

Áskorendalisti Landverndar var afhentur sveitarstjórn fyrir nokkru og sá tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar fyrr í þessari viku.  Heildarfjöldi áskorenda varð 5.925 manns en gangi virkjunaráform Zephyr eftir verður þar um að ræða aðra stærstu virkjun landsins. Það svæði sem færi undir vindorkuverið yrði alls um 41 ferkílómetri að stærð og bæði nálægt og áberandi fyrir ferðafólk sem heimsækir vinsælasta ferðamannastað Austurlands við Stuðlagil.

Skemmst er frá að segja að töluverður tími síðasta sveitarstjórnarfundar Múlaþings fór undir þennan lið og margir tóku til máls sem höfðu skoðanir á því sem lagt var fram. Áskorun Landverndar var á endanum felld því aðeins þrír kusu með tillögunni meðan tveir sátu hjá. Samþykkt var að árétta þær áherslur er fram komu í bókun sveitarstjórnar í janúar síðastliðnum. Þar samþykkti og ítrekaði sveitarstjórnin að „þær grunnforsendur sem þurfi til mótunar stefnu fyrir sveitarfélagið liggi ekki fyrir og mun ekki samþykkja vindorkuver án slíkrar stefnumótunar ríkisins.“ Með öðrum orðum að engar ákvarðanir um uppbyggingu vindorkuvera í Múlaþingi verða teknar fyrr en stefnumótun ríkisvaldsins liggur fyrir.

Unnið hefur verið að slíkri stefnu í umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu um nokkurt skeið og gæti hún legið fyrir á næsta ári. Sveitarfélög landsins hafa meðal annars kallað eftir að við þá vinnu verði tekið tillit til að þau njóti góðs af tekjum vegna slíkra vindorkuvera í framtíðinni en í dag er raunin sú að þau njóta lítils ágóða af orkumannvirkjum í löndum sínum.

Þeir þrír aðilar sem vildu samþykkja áskorunina voru tveir fulltrúar VG, Helgi Hlynur Ásgrímsson og Ásrún Mjöll Stefánsdóttir auk fulltrúa Miðflokksins Þrastar Jónssonar. Sá síðastnefndi lagði fram breytingartillögu þar sem „sveitarstjórn þakkaði erindi Landverndar og lýsti fullum stuðningi við það,“ en sú tillaga var felld.

Tækni gærdagsins

Þau þrjú sem studdu áskorun Landverndar vöktu öll máls á því sem þau kölluðu tækni gærdagsins. Helgi Hlynur sagði Norðmenn til dæmis búna að átta sig á að vindmylluver á landi í ósátt við nærsamfélög og á kostnað náttúrunnar hafi verið röng leið að fara. Þeir horfi nú fyrst og fremst á uppbyggingu slíkra orkuvera á hafi úti.

Þröstur Jónsson tók enn dýpra í árina og benti á miklar framfarir í þróun kjarnorkuvera. Þar helst að þau verða knúin þóríni en ekki úrani eins og verið hefur alla tíð. Þórín sé enn öflugri orkugjafi en með brot af þeirri geislavirkni sem fellur til við vinnslu á úrani auk þess sem ekki mun þurfa jafn risavaxin ver til að hýsa framleiðslu með þóríni.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, benti jafnframt á að ekki sé langt í að lagaramminn kringum vindorkuver skýrist svo taka megi ákvarðanir miðað við lög og reglur sem taka gildi í kjölfarið. Sérstakur vinnuhópur hefur unnið að því í rúmt ár og mun skila af sér tillögum fljótlega á nýju ári.

„Ég held að í ljósi þeirra kynningarvinnu sem við höfum staðið í, ég hef bæði farið með Helga Hlyn til Noregs og Eyþóri Stefánssyni til Danmerkur, að kynna okkur hinar ýmsu hliðar á þessu. Það er algjörlega skýrt að nú mæðir mikið á ríkinu að búa til gott umhverfi fyrir þetta til þess einmitt að taka á þessum stóru álitamálum. Það er mín bjargfasta trú að þetta henti ekki alls staðar en það fer eftir ýmsum þáttum. Til dæmis framgöngu fyrirtækja, samtölum við samfélögin, hvað skilar sér til samfélagsins og hvort orkan skili sér þangað.“

Teikning af fyrirhuguðu svæði undir vindorkuver í landi Klaustursels. Myllurnar verða mjög sýnilegar öllum gestum sem heimsækja Stuðlasel í framtíðinni. Kort Zephyr.