Skip to main content

Hörð gagnrýni á innviðaráðherra meðal sveitarstjórnarfulltrúa Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. sep 2025 11:18Uppfært 12. sep 2025 11:25

Tíu af alls ellefu nefndarmönnum í sveitarstjórn Múlaþings tóku fullum hálsi undir bókun heimastjórnar Seyðisfjarðar þess efnis að ríkisvaldið standi við fyrirheit fjármögnun þeirra samgönguúrbóta sem fyrir liggja í gildandi samgönguáætlun en þar eru Fjarðarheiðargöng í forgangi.

Bókun heimastjórnarinnar kom í kjölfar þeirra ummæla Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra, á íbúafundi á Egilsstöðum í lok ágúst að að Fjarðarheiðargöng yrði ekki endilega í forgangi þegar ný samgönguáætlun verður kynnt innan tíðar. Sitjandi stjórnvöldum bæri engin skylda til að fara í einu og öllu eftir gildandi samgönguáætlun fyrri ríkisstjórna.

Undir kröfur heimastjórnarinnar að framkvæmdir hefjist sem fyrst við Fjarðarheiðargöng eins og staðið hefur til í mörg ár tók sveitarstjórn Múlaþings á sveitarstjórnarfundi fyrr í vikunni þó Þröstur Jónsson, Miðflokki, sæti hjá við afgreiðslu málsins.

Kom hann fram með sína eigin breytingartillögu á bókuninni þar sem hann meðal annars kallaði eftir að sveitarstjórn endurskoði aðalskipulagsbreytingu vegna leiðarvals Héraðsmegin Fjarðarheiðarganga svo betur mætti samnýta aðra vannýtta innviði. Sú breytingartillaga hans var felld.

Enga stórkarlaleiki með samgönguáætlun

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, taldi fráleitt að samgönguáætlun ætti að vera eitthvað sem sé hægt að leika sér með sísona enda væri slík áætlun gerð til mjög langs tíma í senn. Sendi hún innviðaráðherra sterka pillu í ræðu sinni.

„Samgönguáætlun er ekki eitthvað sem ég tel æskilegt að menn leiki sér með í einhverjum pólitískum stórkarlaleik. Að geta sveipað um sig með fögrum loforðum og ætla peningana í sitt kjördæmi. Ég vil benda á að þessi ráðherra Flokks fólksins er að tala fyrir hönd stjórnmálaafls sem hefur sárafáa sveitarstjórnarfulltrúa. Hann hefur litla tengingu við sveitarstjórnir á landinu og það er ansi flókið ef að það sem á að vera ríkjandi séu einhverjar forsendur til að koma einhverjum framkvæmdum inn í sitt eigið kjördæmi. Það er grátlegt og leiðinlegt að horfa  upp á það að í þessum viðhaldspotti upp á þrjá milljarða sem nýlega kom fram að af þessum þremur milljörðum fóru sirka hundrað milljónir til Austurlands. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt og við vitum að vegirnir hérna eru alveg þokkalegir en við getum ekki setið hér endalaust á hakanum og fengið engar framkvæmdir árum saman vegna þess að Fjarðarheiðargöng eru alveg að koma og þau svo bara tekin af okkur svo áfram verði hér algjört stopp í framkvæmdum. Það gengur ekki.“

Allir nema einn hlynntir í aðdraganda kosninga

Eyþór Stefánsson, Austurlistanum, tók undir að nóg væri komið af framkvæmdaleysi á Austurlandi. Hann benti meðal annars á að í kosningabaráttunni á síðasta ári hafi allir frambjóðendur í Norðausturkjördæmi sagst fylgjandi að Fjarðarheiðargöng yrði fyrst og fremst í jarðgangaröð að loknum kosningum.

„Á framboðsfundum fyrir kosningarnar, annars vegar hjá Austurglugganum og hins vegar hjá RÚV, voru allir oddvitar framboðanna spurðir út í samgöngur á Austurlandi og þar sögðu allir nema einn að [gildandi] samgönguáætlun gilti og Fjarðarheiðargöng væru næst á dagskrá. Sá eini sem ekki var því sammála var fulltrúi Flokks fólksins sem vildi frekar skoða Fjarðargöng en Fjarðarheiðargöng. Sá er eini þingmaður kjördæmisins með greiðan aðgang að eyrum innviðaráðherrans. [Ég] tel ljóst að það verður svínað á Austurlandi í næstu samgönguáætlun. Það tel ég öruggt mál.“

Mönnum egnt saman

Helgi Hlynur Ásgrímsson, VG, lýsti mikilli furðu á að göng sem hafa verið næst í röðinni í árafjöld skuli í vetfangi þurfa rökstuðnings umfram Fjarðargöng.

„Þessi nálgun og aðferðafræði innviðaráðherra að egna þessum tveim jarðagangakostum saman er nokkuð sem ég hef aldrei heyrt áður. Aðalmálið hjá honum var að við ættum að rökstyðja það að Fjarðarheiðargöng ættu að vera á undan Fjarðargöngum. Við vorum illa undir þetta búin því eins og fram hefur komið hafa Fjarðarheiðargöngin lengi verið næst á áætlun og svo í beinu framhaldi Fjarðargöng. Að egna mönnum saman með þetta mál er ekkert annað en bull.“

Ekki hlustað á rök

Undir þetta tók Þröstur Jónsson sem sagði augljóst að á fundi oddvita með innviðaráðherra hafi verið nokkuð ljóst að hann hafi ekki verið hingað komin til að hlusta á nein rök.

„Af því litla sem ég lagði fram á þessum fundi var spurningin hvað Norðfirðingur ættu að gera til Seyðisfjarðar eða Seyðfirðingar á Norðfjörð. Í þeirri spurningu liggur einfaldlega sú staðreynd að Norðfirðingar vilja væntanlega komast beint á flugvöllinn og þjónustu á Egilsstöðum. Þeir hafa lítið að gera á Seyðisfjörð og það sama á við um Seyðfirðinga. Þess vegna er rökrétt þegar rætt er um hringtenginguna að byrja á Fjarðarheiðargöngum því þau verða strax notadrjúg ef svo má að orði komast. Fjarðargöngin þó þau séu með hringtengingu, sem er mikilvægt, eru ein og sér til lítils. Það eru lög og reglur í landinu um hvernig skal forgangsraða uppbyggingu samgöngumannvirkja. Það mjög alvarlegt ef menn brjóta þau [lögin og reglurnar.]“