Hólagull á Eskifirði hættir starfsemi
Fyrsta fataloppan sem opnaði á Austurlandi í októbermánuði 2022, Hólagull á Eskifirði, lokar dyrum sínum að líkindum endanlega á laugardaginn kemur.
Þetta staðfestir Elín Rún Sizemore, annar eigendanna, í samtali við Austurfrétt en ástæðan er ekki sú að illa hafi gengið eða áhugi sé lítill heldur fremur sú staðreynd að það er mjög tímafrekt að reka slíka fataloppu og tíminn af skornum skammti hjá rekstraraðilunum. Þá hefur opnun tveggja annarra slíkra fataloppa, á Reyðarfirði og Egilsstöðum, haft sín áhrif.
„Ég vil nú ekki segja kannski að við séum að loka endanlega en við eigum bæði mjög annríkt bæði í vinnu og námi og það er að skarast sérstaklega mikið nú. Maðurinn minn er á kafi í vinnu og ég að vinna að lokaverkefni í háskóla þannig að það er ekki mikill tími aflögu. Þetta alls ekki leiðinlegt og sannarlega hafa bæjarbúar tekið okkur vel þennan tíma. Okkur langar reyndar að gera eitthvað með þetta í framtíðinni en hvort það verður fataloppa eða eitthvað annað verður að koma í ljós.“
Góður lager er af fatnaði í versluninni og þess vegna hægt að gera „ruglgóð kaup“ eins og Elín segir fram á lokadaginn á laugardag. Allt á öllum básum á afsláttarkjörum alveg upp í 90 prósent þangað til og enginn þarf heldur beint á staðinn því hægt er að panta allar vörur gegnum netverslun Hólagulls.