Skip to main content

Hollvinafélag skal gera skíðasvæðinu í Oddsskarði mun hærra undir höfði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. apr 2025 16:25Uppfært 16. apr 2025 16:26

Hópur fólks hyggst koma saman í kvöld í Valhöll á Eskifirði til að stofna með formlegum hætti sérstakt hollvinafélag skíðasvæðisins í Oddsskarð. Þangað allir velkomnir sem vilja veg þessa einstaka skíðasvæðis sem mestan og bestan.

Varla þarf að rífast mikið um að bæði austfirsku skíðasvæðin, Stafdalur og Oddsskarð, eiga töluvert meira inni hvað vinsældir varðar en raunin hefur verið enda kostuleg skíðasvæði í glæsilegu umhverfi þó deila megi um aðstöðuna á báðum stöðum.

Hvað Stafdal varðar hefur þjónustan verið takmörkuð, húsakostur og aðkoma lítt heillandi og tæki og tól komin vel til ára sinna. Það skýrist að stærstu leyti af því að síðasta áratug rúman hafa það verið sjálfboðaliðasamtök, með mjög takmörkuð fjárráð, sem hafa rekið svæðið og aðeins síðla árs 2022 sem sveitarfélagið Múlaþing tók yfir rekstur svæðisins.

Þó skíðasvæðið í Oddsskarði hafi verið í höndum Fjarðabyggðar um árabil segir forsprakki fundarins í kvöld það staðreynd að skíðasvæðið hafi lengi vel verið nokkurt olnbogabarn í höndum sveitarfélagsins. Þar um að ræða Sævar Guðjónsson ferðaþjónustubónda á Mjóeyri sem sannarlega hefur gert sitt til að koma skíðasvæðinu á framfæri síðustu árin.

„Það verður formlegur stofnfundur félagsins Vinir Oddskarðs í kvöld en slíkt hefur verið að veltast í hausnum á mér í mörg ár og nú er komið að stóru stundinni. Ég hef tekið spjall við marga einstaklinga vegna þessa og allir sem einn tekið vel undir að slík félagasamtök geti breytt hlutum til hins betra. Allnokkrir þegar boðið sig fram í stjórn og sýnt þessu áhuga svo ég er mjög bjartsýnn á kvöldið.“

Hugmyndin með vinasamtökum segir Sævar vera að reyna að leita liðsinnis áhugasamra til að gera skíðasvæðið meira spennandi en verið hefur undanfarin ár.

„Markmiðið verður að reyna að styrkja svæðið með auknum fjármunum en einnig öðrum hætti enda mikil þekking í þeim hóp sem sýnt hefur þessu áhuga. Í hópi áhugasamra er fólk allt frá verkfræðingum til tæknimanna og allt þar á milli. Allt er þetta fólk sem getur lagt málefninu lið með ýmsum hætti. Því miður höfum við séð svæðið byggjast allt of hægt upp undanfarin ár og reyndar séð það drabbast niður allra síðustu árin. Þetta verður vonandi ein leið til að gera svæðið meira heillandi og spennandi fyrir heimafólk og gesti í framtíðinni.“

Þessu tengt fékk greinarhöfundur fjóra blaðamenn frá Norðurlöndunum í heimsókn síðastliðið haust og eitt stoppið á ferð um Austurlandið var í Oddsskarðið. Viðbrögðin lítt góð og engum fannst svæðið spennandi né höfðu áhuga að fjalla um í sínum miðlum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.