Horft til þéttingar byggðarinnar á Vopnafirði á næstu árum
Sýn sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps í húsnæðismálum næsta áratuginn lýtur að því að þétta núverandi byggð og horft skuli til nýtingar ónýttra lóða í bænum áður en meira land verður skipulagt undir íbúðabyggð.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri húsnæðisáætlun hreppsins sem birt var í byrjun mánaðarins en þeirri áætlun er ætlað að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimilanna til langframa.
Í plagginu er meðal annars tekið mið af hugsanlegri íbúafjölgun og eða fækkun hvað húsnæðismál varðar fram til ársins 2035. Íbúum hefur fækkað um tæpt prósent frá aldamótunum en þó haldist stöðugur að mestu síðastliðin tíu ár og standa vonir til að það verði raunin áfram næstu ár nema til komi stórkostlegar fjárfestingar í atvinnulífinu eða annarra stórra breytinga á aðstæðum.
Meðalaldur húsnæðis hár
Þannig mun íbúum fjölga um 0,5 prósent árlega samkvæmt háspá en árleg lágspá næsta ártuginn gerir ráð fyrir fækkun íbúa um 0,3%. Gangi háspáin eftir þarf að byggja fimmtán nýjar íbúðir á næsta áratug en þörf fyrir aukið húsnæði ef lágspáin raungerist er engin yfir sama tímabil.
Í dag er enginn skortur á íbúðum og enginn umsækjandi er á biðlista eftir félagslegu húsnæði auk þess sem nægt framboð er á lóðum nú þegar sem eru í skipulagsferli.
Fram kemur í áætluninni að ef undan eru skildar þær átta íbúðir sem byggðar voru 2020 með sérstökum framlögum ríkis og sveitarfélaga hefur lítið sem ekkert verið byggt á Vopnafirði í þrjá áratugi. Sú staðreynd hefur mikið með það að segja að meðalaldur íbúðarhúsnæðis á Vopnafirði er nokkuð hærri en annars staðar á Austurlandi eða 52 ár. Meðalaldurinn á Austurlandi öllu er 47 ár en 41 ár þegar allt landið er tekið saman.