Hornsteinn lagður að nýrri götu í Fellabæ

Hornsteinn var í dag lagður að nýrri götu, Selbrún, í Fellabæ. Vonir standa til að fyrstu íbúðirnar við götuna verði tilbúnar eftir um ár.

Það er Hrafnshóll sem áformar að byggja alls 40 íbúðir við götuna. Fyrirtækið hefur síðustu ár sérhæft sig að nýta þau úrræði sem ríkið hefur upp á að bjóða til að örva húsnæðismarkað á landsbyggðinni síðustu ár og meðal annars byggt á Vopnafirði.

„Við höfum byggt á annað hundrað íbúðir í kringum Ísland. Við byggjum bara hagkvæmar íbúðir úti á landi,“ sagði Sigurður Garðarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hrafnshóls við athöfnina í dag.

Íbúðirnar við Selbrún eru sérstaklega hannaðar fyrir hlutdeildarlán, úrræði sem nýtast á tekjulægri einstkalingum. Slíkt lán hefur ekki áður verið veitt til framkvæmda á Austurlandi. „Við höfum verið að nýta okkur þessar leiðir sem í goði eru. Þetta eru samfélagsverkefni sem við höfum tekist á við með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ráðuneytinu og sveitarfélögunum,“ sagði Sigurður.

Hrafnshóll skrifaði einnig undir samning í dag um byggingu tíu íbúða á Bíldudal fyrir atvinnufyrirtæki og er að byggja á Bolungarvík og Ísafirði. „Það er áskorun að vera með mannskap á sitt hvorum enda landsins en okkur finnst það gaman. Við erum heppin að hafa fólk sem staðið hefur við bakið á okkur lengi. Þetta tekur allt tíma en kemur gott að lokum,“ sagði Sigurður.

Nafni hans, Ingi Jóhannsson, innanríkisráðherra, var meðal þeirra sem lögðu handarfar sitt í steypuna sem verður hornsteinn Selbrúnar. „Það er mjög mikilvægt fyrir ríkisvaldið og stjórnvöld að hafa mismunandi verkfæri til að bregðast við framboðs eða eftirspurnarhliðinni,“ sagði hann og bætti: „Það er gaman að taka þátt í þessu í þessu fína vorviðri.“

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings, lagði einnig sitt handarfar í steypuna. „Ég fagna því að þetta góða verkefni sé loks að komast af stað. Selbrúnin hefur verið tilbúin til framkvæmda í nokkurn tíma. Þegar fulltrúar Hrafnhóls komu til fundar við okkur og við bentum á þennan stað vaknaði strax áhugi. Síðan hafa verið í gangi hugmyndir um útfærslur sem loks sér nú fyrir endann á,“ sagði hann.

Þriðja lófann í hornsteininum á Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. „Við leggjum mentað okkar í að styðja við sveitarfélögin. Í fyrra settum við af stað stórt verkefni, Tryggð byggð, sem er samstarf ríkis og sveitarfélaga. Á vegum þess eru 400 íbúðir í byggingu með þeim tækjum sem stjórnvöld hafa lagt til.“

Þótt hornsteinninn hafi verið lagður er ekki þar með sagt að framkvæmdir byrji strax í fyrramálið því deiliskipulag svæðisins er óklárt en í ferli. Miðað við að það klárist á eðlilegum tíma stefnir Hrafnhóll á að hefja framkvæmdir eftir verslunarmannahelgi þannig hægt verði að flytja inn í fyrstu íbúðirnar eftir páska á næsta ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.