Skip to main content

Hrap í farþegafjölda með áætlunarvögnum á landsbyggðinni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. mar 2022 15:22Uppfært 31. mar 2022 15:23

Óhætt er að tala um hrap á þeim fjölda fólks sem nýtir sér almenningssamgöngur á landsbyggðinni og Vegagerðin, sem rekur mest af þeirri þjónustu, vill gera bragarbót þar á til framtíðar.

Árið 2014 voru farnar rúmlega ein milljón ferða með þeim vögnum sem Vegagerðin hefur umsjón með á landinu öllu en á nýliðnu ári væru ferðirnar rétt yfir 200 þúsund talsins og voru enn færri en það árið 2020. Það er fækkun um rétt rúmlega 80 prósent á aðeins sex árum.

Að frátöldum rekstri Strætó á höfuðborgarsvæðinu og stöku leiðum á vegum sveitarfélaga landsins er það Vegagerðin sem rekur aðrar leiðir milli staða og þó Covid-faraldurinn hafi vafalítið haft töluvert að segja um ferðir landans og ferðamanna síðustu tvö árin sérstaklega hefur fækkun orðið á þeim er notfæra sér áætlunarferðir á landi frá árinu 2014 eins og sjá má á meðfylgjandi korti.

Á sérstökum morgunverðarfundi sem Vegagerðin hélt þennan daginn var farið yfir þessa stöðu mála og listaðar upp nokkrar þær aðgerðir sem ráðast á í á næstu misserum og árum til að breyta þessari þróun.

Þar á meðal skal bæta aðgengi fyrir fatlaða í nýjum vögnum á tilteknum vinsælum leiðum. Leiðakerfið skal endurnýja og sérstaklega tryggja öruggar tengingar milli ferðakosta hvort sem er með ferjum, skipum, flugvélum eða öðrum áætlunarbifreiðum. Tryggja skal að áætlunarferðir á landi verði hagkvæmur kostur og samkeppnishæfur við aðra kosti og þá skal ennfremur huga að loftslagsmarkmiðum í sömu andrá.

Vegagerðin vill líka kanna fýsileika þess að byggja sérstakar samgöngumiðstöðvar á tilteknum stöðum og ekki síður bæta aðstöðu á biðstöðvum utan þéttbýlis. Áætlunin miðast við næstu tíu ár eða svo og standa vonir til að í kjölfar bættrar þjónustu mega fjölga farþegum í vögnunum á nýjan leik.