Skip to main content

Hreindýr fælast vindorkuver

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. apr 2025 15:33Uppfært 10. apr 2025 15:37

Vísbendingar eru um að hreindýr, einkum á burðartíma, kjósi að halda sig frá vindorkuverum. Áhrif á annan búfénað og landbúnað hafa til þessa verið talin takmörkuð en nýjar rannsóknir sýna dulin áhrif. Sérfræðingur, sem starfað hefur með Rammaáætlun, segir afar takmörkuð gögn hafa fylgt mörgum hugmyndum að vindorkuverum sem reynt hafi verið að koma inn á áætlunina.


Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi Landverndar og Náttúrusamtaka Austurlands um vindorkuver sem haldinn var á Egilsstöðum fyrir viku.

Niðurinn úr vindmyllunum stressar eldisdýr


Vigdís Freyja Helmutsdóttir, líffræðingur, ræddi þar um áhrif vindorkuvera á aðra landnotkun, einkum landbúnað. Vigdís Freyja sagði að með tímanum hefði verið að koma betur í ljós dulin áhrif á landbúnaðarland og landbúnaði. Hún fór yfir nýjar pólskar rannsóknir sem sýna að stress og þar með nytjar í svínum og alifuglum minnki eftir því sem þau séu nær vindmyllum. Myllurnar gefa frá sér lágtíðnihljóð sem hafa áhrif á dýrin en ekki fólk sem nemur ekki hljóðin.

Vigdís sagði æskilegt að fá frekari rannsóknir á sviðinu fram, til dæmis yfir lengri tíma upp á hvort eldisdýrin aðlagist vindmyllunum því þau séu vanari áreiti en þau villtu. Fyrstu niðurstöður væru að minnsta kosti í þá átt að ekki væri æskilegt að halda dýr innan ákveðinnar fjarlægð frá vindmyllum.

Vigdís ræddi meðal annars áhrif á hreindýr sem hún sagði viðkvæm fyrir truflunum. Í Noregi eru reglur um að óæskilegt sé að setja niður vindmyllur þar sem hreindýr ganga vill en ekki bannað. Hún vísaði í norskar og sænskar rannsóknir sem sýna bein áhrif af truflunum á dýrin, einkum kýr með kálfa. Þess utan hefðu vegir og umferð áhrif á þau. Um sauðfé sagði hún að vindmyllur á afréttum gæti breytt beitarhegðun kindanna og aukið álag á ákveðin svæði.

Örplastið virðist ekki stærsta vandamálið


Þá sagði Vigdís benti á að gróður raskaðist ekki bara út af vindmyllunum sjálfum heldur öðru sem þeim tengist, meðal annars vegum. Í dag er áætlað að 2.5000 fermetrar lands raskist fyrir hverja vindmyllu, án þess að vegirnir séu teknir með í reikninginn.

Hún kom einnig inn á efnamengun, svo sem olíulega og örplast frá myllunum. Um örplastið sagði Vigdís að rannsóknir væri á reiki en tiltók sérstaklega sænska rannsókn sem sýndi að um 150 grömm kvörnuðust af spöðunum á ári. Miðað við þær forsendur væri örplastið ekki aðaláhyggjuefnið. Vigdís ræddi einnig áhrif á veðurfar næst vindmyllunum, en þær geta haft áhrif á blöndun lofts og þar með gróðurfar. Vigdís sagði ekki víst að þau áhrif yrðu mikil hérlendis.

Verja þarf votlendið


Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur, sagði að huga þyrfti vandlega að staðsetningu vindmylla. Hann gagnrýndi hvað harðast hugmyndir um að koma þeim upp á votlendissvæðum þar sem fuglalíf sé ríkulegt. Þess utan verði að horfa í leiðir farfugla og búsvæði. Hann nefndi dæmi um vindmyllu á eyju við Noreg sem væri á slæmum stað og strádræpi haferni.

Jóhann Óli vísaði einnig í breskar rannsóknir sem sýna neikvæð áhrif á heiðlóur og spóa sem eru tegundir sem Íslendingar teljast bera ábyrgð þá, þar sem stór hluti stofnanna á heimsvísu verpi hér. Hann sagði að ýmis ráð væru reynd til að bægja fuglum frá vindmyllum, hljóð, nemar sem stöðvi spaðana en allt sé enn á tilraunastigi.

Hafa áhrif inn á víðerni


Þorvarður Árnason, frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, hefur unnið með verkefnastjórn Rammaáætlunar, sem gerir tillögur um flokkun virkjanakosta hérlendis, að því að meta áhrif virkjana á víðerni. Hann sagði að í fjórða áfanga Rammaáætlunar hefðu hugmyndir að 34 vindorkuverum komið inn á borð verkefnastjórnar. Flestar hefðu verið dregnar til baka því grunnupplýsingar hefði vantað. Hann benti þó einnig á að hérlendis skorti grunnrannsóknir á landslagi víðerna.

Þorvarður ræddi líka hvernig áhrif á óröskuð svæði væru metin. Hann sagði orkufyrirtæki leika sér að því að staðsetja orkuver sín nærri svæðum sem vissulega séu röskuð en ekki verulega, til dæmis rafmagnslínum en áhrifin berist víða. Hann tók sem dæmi hugmyndir um vindorkuver í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði sem hann sagði sjást í tug kílómetra fjarlægð, innan miðhálendislínu og Vatnajökulsþjóðgarðs, fyrir utan að dreifa úr sér um svæðið. Þar með skerðist óröskuð víðerni.

Hvaðan á jöfnunarorkan að koma?


Andrés Skúlason, fyrrverandi oddviti Djúpavogshrepps og nú verkefnastjóri hjá Landvernd, sagði hugmyndir um rúmlega 40 vindorkuverkefni hafa verið settar í gang hérlendis því bæði lög og stjórnsýsla væri veikburða. Þess vegna væru margfalt fleiri hugmyndir á lofti hérlendis heldur en í Noregi og Svíþjóð, þrátt fyrir að þau lönd séu stærri. Hér væri á sama tíma kvartað undan hægagangi í stjórnsýslunni og dregið væri úr fjármagni til þeirra stofnana sem annist utanumhaldið og rannsóknir. Hann gagnrýndi líka sveitarfélög fyrir að halda áfram skipulagsvinnu þótt lagaumhverfið skorti.

Andrés velti upp spurningum um þörfina á orkuframleiðslunni. Enn væri langt í land með rafeldsneytisverksmiðjur og skip sem nýti það. Þá sagði hann að stóra spurningin sem enginn vildi svara væri jöfnunarorka á móti vindorku hérlendis. Hún yrði að koma út vatnsvirkjunum og þar með réði enginn yfir henni nema Landsvirkjun, sem gæfi ekkert færi á henni.

Hvað skilur orkuframleiðslan eftir sig í samfélaginu?


Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, ræddi um lagaumhverfi sveitarfélaganna, hvernig þeim væri gert að aðlaga sitt skipulag að Rammaáætlun og lítið samráð væru við þau. Nú standi til að stytta aðlögunartíma sveitarfélaganna úr tíu árum í fjögur.

Hún sagði sveitarfélög hugsa um þær tekjur sem fáist af orkuframleiðslu, annað hvort í gegnum störf eða skatta, auk áhrifa á innviði og náttúru. Þótt Kárahnjúkavirkjun, sem framleiði 28% af orku Landvirkjunar, sé innan marka sveitarfélagsins eru þar aðeins 14 starfsmenn eða 4,9%. Þá sé ekki enn komið þriggja fasa rafmagn á Jökuldal, í næsta nágrenni við Hálslón. Sem stendur sé viðskiptamódelið ekki fýsilegt fyrir sveitarfélögin en það gæti breyst með fasteignasköttum af mannvirkjum.

Líkt og Andrés kallaði hún eftir sterkari umgjörð málaflokksins. Á meðan væru lukkuriddarar um sveitir, semdu beint til landeigendur, væntingar færu við það úr hófi fram og umræðan í óreiðu. Hún sagði að sem stæði væri ekki mikil eftirspurn eftir orku á Austurlandi sem sýndi sig á því hversu hægt Zephyr færi með áform sín í landi Klaustursels.