Hreystigarður að veruleika á Seyðisfirði
Fallegar aspir út í hólmann, hreystigarður við sundlaugina, skiptibókasöfn utandyra og fjallahjólastígur ofan af Bjólfi alla leið niður í miðbæinn.
Ofangreint fjórar af tólf hugmyndum alls að samfélagsverkefnum sem heimafólk á Seyðisfirði hefur undanfarið komið á framfæri við heimastjórn bæjarins í því skyni að bæta bæjarbrag með litlum tilkostnaði. Fyrr í vikunni féllst heimastjórnin á að koma einu þeirra á laggirnar og hefur þegar fest kaup á tveimur hreystitækjum sem koma skal fyrir á sundlaugartúninu. Verður þar með kominn upp fyrsti vísir að hreystigarði sem mjög hafa rutt sér til rúms víða. Þar gefst öllum færi á að æfa þrek og teygjur undir beru lofti og skapa jafnframt líf á svæðinu.
Önnur hugmynd sem ekki hlaut brautargengi að þessu sinni varðar að snyrta svæðið þar sem skipasmíðastöðin stóð við Hafnargötu, koma þar fyrir upplýsingaskiltum um þau hús þar sem fóru undir skriðurnar 2020 og veita ferðafólki þannig innsýn inn í heim sem var. Þá snérist önnur hugmynd um að útbúa góðan fjallahjólastíg frá þeim stað þar sem útsýnispallurinn við Bjólf skal rísa, alla leið niður í miðbæ og „enda á Regnbogagötunni í bjór“ eins og hugmyndin var orðuð.