Hringveginum lokað í Fáskrúðsfirði í kvöld vegna viðgerða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. sep 2025 09:29 • Uppfært 28. sep 2025 09:30
Loka þarf veginum um sunnanverðan Fáskrúðsfjörð við bæinn Eyri í kvöld frá klukkan sjö til miðnættis. Gera þarf við skemmdir sem urðu á veginum.
Vegurinn skemmdist í mikilli úrkomu sem gekk yfir Austfirði á fimmtudag og föstudag. Mest úrkoma á landinu mældist á veðurstöðinni á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði þar sem sólarhringsúrkoman fór í um 120 mm.
Í tilkynningu Vegagerðarinnar er vísað á að hægt sé að komast yfir Öxi og Breiðdalsheiði á þeim tíma sem viðgerðin stendur. Rétt er þó að taka fram að vegurinn yfir Öxi er afar ósléttur, en hann hefur farið illa í haustrigningum.
Vegurinn út með sunnanverðum Reyðarfirði er enn lokaður eftir að Miðstrandará tók hann í sundur. Áfram er varað við grjóthruni í Vattarnesskriðum. Ekki hafa verið frekari tilkynningar um það síðan á föstudag og er það jafnframt eina hrunið eða skriðuföllin sem Veðurstofan hefur fengið fréttir af.
Vegurinn við Jökulsá í Lóni var opnaður í gærkvöldi eftir að hann fór í sundur á föstudagsmorgun. Áfram er unnið að viðgerð þar og búist við stuttum lokunum í dag og á morgun. Hámarkshraði á kaflanum er 30 km/klst.
Allt á floti við Eyri á föstudagsmorgun. Mynd: Krummi