Hringveginum lokað og ræsi hafa ekki undan á Suðurfjörðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. sep 2025 08:45 • Uppfært 26. sep 2025 08:48
Hringvegurinn er lokaður milli Djúpavogs og Hafnar í Hornafirði eftir að Jökulsá í Lóni tók hann í sundur í morgun. Víðar flæðir yfir vegi á Suðurfjörðum eftir úrhellisrigningu í nótt.
Vegurinn í Lóni er í sundur á 50 metra kafla. Björgunarsveitir manna lokunarpósta við Höfn og Djúpavog þar sem fólk á ferð er upplýst um stöðuna.
Loftur Þór Jónsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir ljóst að skoða þurfi aðstæður við ána en hún flæddi líka yfir veginn og lokaði honum í stórrigningu í febrúar. Huga þurfi betur að hönnun varnargarða þar.
Í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði flæðir einnig yfir veginn þar sem ræsi hafa ekki undan. Vegirnir eru þó enn opnir en Vegagerðin fylgist með framvindu mála.
Mesta úrkoma á landinu frá miðnætti er á Fáskrúðsfirði, 67 mm en þar á eftir kemur Teigarhorn með 53 mm. Enn rignir hressilega á Fáskrúðsfirði en heldur hefur dregið úr úrkomu á Teigarhorni. Gul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði vegna úrkomu til klukkan 13 í dag.
Eins er í gildi gul viðvörun vegna hvassviðris fyrir spásvæðið og sambærileg viðvörun gengur í gildi fyrir Austurland að Glettingi. Báðar gilda til 23 í kvöld. Spáð er 15-23 m/s úr suðri eða suðaustri og vindstrengjum við fjöll sem geta skapað hættu, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Engin verkefni hafa þó enn komið til kasta lögreglu eða björgunarsveita, eftir því sem næst verður komist.
Lokað er milli Djúpavogs og Hafnar. Mynd úr safni.