HS Orka kaupir virkjanirnar í Fjarðará
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. sep 2023 11:04 • Uppfært 01. sep 2023 11:04
HS Orka hefur keypt félagið Íslenska orkuvirkjun sem rekur tvær vatnsaflsvirkjanir í Fjarðará sem fellur niður í Seyðisfjörð.
Virkjanirnar tvær sem um ræðir eru Bjólfsvirkjun og Gúlsvirkjun sem gangsettar voru árið 2009. Allt frá þeim degi hefur HS Orka keypt allt rafmagnið sem þær framleiða og stýrt framleiðslunni.
Í tilkynningu HS Orku segir að virkjanirnar búi að góðum miðlunarlónum í Heiðarvatni og Þverárlóni á Fjarðarheiði. Miðlun úr þeim geri fyrirtækinu kleift að nýta framleiðsluna til að mæta álagstoppum almennra notenda að vetrarlagi. Orkan frá þeim er fyrst og fremst ætluð til sölu til almennra notenda.
„Virkjanirnar gera okkur kleift að þjóna enn betur viðskiptavinum okkar á hinum almenna markaði. Við þekkjum þessar virkjanir vel og höfum átt afar farsælt samstarf við fyrri eigendur. Það er einnig fagnaðarefni að með kaupunum hefur HS Orka nú fært út kvíarnar í nýjan landshluta og er fyrirtækinu í mun að falla vel að samfélaginu fyrir austan,“ er haft eftir Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku sem áður var forstjóri Alcoa Fjarðaáls.
HS Orka er þriðji stærsti orkuframleiðandi landsins, stofnuð árið 1974. Fyrirtækið er til helminga í eigu Jarðvarma slhf. (félags í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða) og sjóða í stýringu Ancala Partners LLP. HS Orka á og rekur jarðvarmavirkjanirnar Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, vatnsaflsvirkjun að Brú í Biskupstungum og nú Fjarðarárvirkjanirnar
Kjölur fjárfestingafélag var fyrri eigandi Íslenskrar orkuvirkjunar. Félagið var afhent í gær. Kaupin eru kaupin að stærstum hluta fjármögnuð með eiginfjárframlagi hluthafa HS Orku.