HSA fær tvö ný einbýlishús afhent í Neskaupstað
Fyrr í þessum mánuði fékk Heilbrigðisstofun Austurlands (HSA) afhent formlega tvö ný einbýlishús í Neskaupstað en þau eru ætluð starfsfólki stofnunarinnar.
Það lengi verið einn akkilesarhæll starfsemi HSA, eins og margra annarra aðila austanlands, að húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi vandamál og það hefur mikil áhrif á hversu vel tekst að manna sjúkrahús og heilsugæslur og almennt sinna lögbundinni þjónustu við íbúa fjórðungsins.
Það breyttist til batnaðar nýverið þegar smíði lauk á tveimur einbýlishúsum sem fyrirtækið Nestak byggði í bænum og settu á sölu í kjölfarið. Ríkiskaup, fyrir hönd HSA, greip þann bolta á lofti og keyptu eignirnar en aðeins tók ellefu mánuði að ljúka smíði húsanna frá fyrstu skóflustungu. HSA mun leigja bæði húsin af Ríkiskaupum og er sá leigusamningur ótímabundinn með öllu.
Að sögn Guðjóns Haukssonar, forstjóra HSA, er þetta mikil bragarbót enda sé margt starfsfólk stofnunarinnar langt að komið.
„Starfssvæði HSA er stórt og mikið og við reiðum okkur talsvert mikið á starfsfólk sem er að koma til okkar langt að annars staðar frá. Það starfsfólk þarf eðlilega húsnæði og við erum almennt að leigja töluvert af húsnæði vegna þess vítt og breitt um Austurland. Þetta hjálpar okkur mikið að fá meiri festu og stöðugleika í starfsemina í Neskaupstað.“
Tvö ágæt einbýlishús standa nú starfsfólki HSA í Neskaupstað til boða og veitir ekki af. Mynd HSA