Skip to main content

HSA undirbýr yfirtöku reksturs Sundabúðar í sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. feb 2024 11:32Uppfært 21. feb 2024 11:34

Þann 1. júní næstkomandi hefst nýr kafli í sögu hjúkrunarheimilisins Sundabúðar á Vopnafirði þegar Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) tekur formlega við rekstrinum að nýju en HSA sá um reksturinn áður en Vopnafjarðarhreppur tók við því kefli árið 2013.

Það engin launung að rekstur heimilisins hefur reynst sveitarfélaginu afar þungur í skauti um margra ára skeið sem var ástæða þess að rekstrarsamningi Vopnafjarðarhrepps við Sjúkratryggingar Íslands var sagt upp frá og með síðustu áramótum. Hefur hreppurinn á þessu tímabili þurft að greiða hátt í 400 milljónir til rekstursins þar sem greiðslur frá ríkinu hafa aldrei dugað fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Það er mikið fjármagn fyrir fámennan hrepp sem gæti sannarlega nýst í annað.

Að sögn Guðjóns Haukssonar, framkvæmdastjóra HSA, er nú unnið að undirbúningi yfirtökunnar og hópur frá þeim mun einmitt funda á Vopnafirði í dag þess vegna.

„Í grunninn snýst þetta aðallega um að færa starfsmannahópinn undir Heilbrigðisstofnun Austurlands en auðvitað færast allar skuldbindingar yfir á okkur. Það er ekki svo að rekstrarvandi hverfi neitt þó við tökum þarna yfir. Staðreyndin er að rekstur allra hjúkrunarheimila er þungur og svona litlar rekstrareiningar eins og við erum með svona heilt yfir hjá HSA þá er gjarnan erfitt að ná stærðarhagkvæmni. Vonandi getum við samt nýtt einhvern kraft úr frá almennri stærð stofnunarinnar.“

Guðjón segir HSA ekki enn hafa lagst sérstaklega yfir neinar hugmyndir eða tillögur að því hvernig megi breyta rekstrargrundvelli Sundabúðar til betri vegar en fundir á næstunni með heimamönnum og starfsfólki muni gefa skýrari mynd af stöðunni og hugsanlega hvernig ná megi ná hagkvæmari rekstri.

„Það eru tækifæri til staðar sannarlega. Sundabúð verður sjötta hjúkrunarheimilið sem við rekum í sex mismunandi byggðakjörnum og það eru eflaust tækifæri fólgin í samþættingu öldrunarþjónustunnar á þessum svæðum og þar til dæmis með heimaþjónustu. Það er góður hópur starfsfólks með góðan bakgrunn á Vopnafirði og ástæða til að ætla að hægt sé að skapa góðan grunn fyrir heimahjúkrun. Þannig væri hugsanlega hægt að veita góða þjónustu á kvöldin eða jafnvel haft þjónustu aðgengilega allan sólarhringinn komi eitthvað upp í heimahúsum. Þetta höfum við til dæmis gert á Seyðisfirði og það gengur afar vel.“

Hjúkrunarheimilið Sundabúð er bæði með legupláss og leiguíbúðir fyrir aldraða og töluvert fjármagn farið til viðhalds og endurnýjar utandyra og innan síðustu árin. Mynd AE