Hét stuðningi við áframhaldandi uppbyggingu
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hét stuðningi ríkisstjórnarinnar við áframhaldandi uppbyggingu Vatnajökulsþjóðfarðs þegar þjóðgarðsstofan á Skriðuklaustri, sem fengið hefur nafnið Snæfellsstofa, var opnuð í dag.
Svandís sagði ríkisstjórnina vilja styðja við umhverfisvernd þótt ekki yrði hægt að byggja þjóðgarðinn upp jafn hratt og áætlað var vegna áfalla í íslensku efnahagslífi.
Hún sagði vinnu við verndaráætlun ganga vel og hún yrði væntanlega staðfest af ráðuneytinu innan skamms. Hún bætti því við að vaxandi áhugi væri um allan heim á Vatnajökulsþjóðgarði.
Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á Skriðuklaustri, benti gestum á opnuninni út um gluggan til austurs þar sem sjá mátti skógrækt Héraðsskóga. Á henni hefðu stórhuga bændur byrjað fyrir þrjátíu árum og menn væru ekki síður stórhuga nú þegar Vatnajökulsþjóðgarður væri byggður upp.