Skip to main content

Hugmyndir ungmennaþings í Fjarðabyggð áfram í kerfinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. apr 2023 09:49Uppfært 18. apr 2023 10:04

Innan Fjarðabyggðar hyggjast menn reyna eins og framast er unnt að verða við helstu ábendingum sem fram komu á sérstöku ungmennaþingi sveitarfélagsins sem fram fór í byrjun mars.

Ungmennaþingið var hið fyrsta sem haldið var í Fjarðabyggð en þar kom saman fjöldi unglinga úr öllum skólum sveitarfélagsins og lögðu á ráðin um það sem betur mætti fara að þeirra mati. Yfir 70 tillögur til bóta voru á endanum lagðar fram um skólastarfið sjálft, samgöngur, félagslíf og einelti svo fátt sé nefnt.

Eyrún Inga Gunnarsdóttir, deildarstjóri tómstunda og forvarna hjá Fjarðabyggð, segir að tillögur ungmennanna fari ekki undir stól eða ofan í skúffu heldur þvert á móti. Hugmyndirnar séu skoðaðar í stóra samhenginu sem hluti af aðgerðaráætlun barnvæns samfélags innan sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið mun leggja sig fram um að forgangsraða því sem fram kemur og reyna eins og það getur að verða við þeim ábendingum sem fram komu. Auðvitað er aldrei hægt að gera allt og vega þarf allt og meta en það má líka eiga aðgerðir inni fyrir næsta hring, þar sem verkefnið hefur enga loka dagsetningu, heldur er þetta áframhaldandi verkefni. Sveitarfélagið er að klára stöðumatið, þegar því er lokið mun stýrihópur barnvæns sveitarfélags í Fjarðabyggð funda og hefja vinnu við aðgerðaráætlunina. Í henni mun koma fram hvaða umbætur verður farið í og hvernig.