Skip to main content

Hugsanleg lausn komin vegna „Stóra salernismálsins“ á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jan 2024 14:28Uppfært 12. jan 2024 14:29

Byggingafulltrúi Múlaþings liggur nú yfir fyrstu tillögu að lausn salernismála í verslunar- og þjónustukjarnanum að Búlandi 1 á Djúpavogi en sú tillaga var lögð fram af hálfu Samkaupa rétt fyrir áramótin.

Gárungar á Djúpavogi hafa í gamni kallað þetta Stóra salernismálið en það snýst um deilur milli heimastjórnar Djúpavogs annars vegar og rekstraraðila í eina verslunarkjarnanum í bænum sem komust í hámæli síðasta sumar. Þær snúast um þá skoðun heimastjórnar og íbúa margra að þjónustuaðilar eigi og verði að bjóða gestum upp á salernisaðstöðu innahúss. Engin slík aðstaða hefur verið til staðar sem hefur haft í för með sér undanfarin ár að gestir, fyrst og fremst erlendir ferðamenn, hafa gert þarfir sínar á lóðinni í staðinn með tilheyrandi óhreinlæti.

Í bréfi sem forstjóri Samkaupa sendi heimastjórn rétt fyrir áramót leggur hann fram tillögu til lausnar og segir sitt fyrirtæki sannarlega hafa með jákvæðu hugarfari leitað lausna á málinu um hríð.

Í verslunarhúsnæði sem Samkaup leigir eru einnig aðrir leigutakar en þeir eru ÁTVR, Landsbankinn og Íslandspóstur. Það er því ljóst að margþætt grunnstarfssemi er rekin á Djúpavogi ekki síst fyrir tilstuðlan Samkaupa. Árið 2022 kom tillaga frá fulltrúa sveitastjóra á Djúpavogi sem Samkaup lét teikna upp og verðmeta. Reyndist sú hugmynd óframkvæmanleg, bæði vegna þess að þetta kostaði mikið rask á innra skipulagi og hefði haft neikvæð áhrif á þá aðila sem í húsinu eru í dag. Eins var framkvæmdin mjög kostnaðarsöm sem engin leigutaki treysti sér til að taka þátt í. Lagt hefur verið upp með að þau fyrirtæki sem í húsinu eru kosti framkvæmdir en sveitafélagið sjái alfarið um rekstur. Ég legg því fram nýja tillögu [...] sem vonandi getur leyst salernismál á Djúpavogi. Rétt er að benda á að nýlega voru opnuð almenningssalerni í um 150 metra fjarlægð sem mun væntanlega hjálpa til við lausn málsins.“

Hugmynd forstjórans er að koma fyrir tæplega fimm fermetra stórri salernisaðstöðu bakatil í húsnæðinu að Búlandi 1 með einu klósetti og vaski. Það í viðbót við salernisaðstöðuna skammt frá gæti leyst vandamálið sem hér um ræðir.

Verslunar- og þjónustukjarninn að Búlandi á Djúpavogi. Hugsanlega er komin fram lausn á því að erlendir ferðamenn gangi örna sinna á lóð hússins.