Skip to main content

Hugsanlega fleiri jarðhitaboranir á Seyðisfirði síðar í sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jún 2025 13:58Uppfært 11. jún 2025 14:01

Umfang jarðhitaleitar á Seyðisfirði eftirleiðis mun töluvert ráðast af því hvort HEF-veitur hljóti styrk úr nýjum jarðhitaleitarsjóði stjórnvalda. Nýjast borhola fyrirtækisins við Dagmálalæk reyndist ekki gefa nægilega góða útkomu.

HEF-veitur tóku um áramótin formlega við rekstri fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar úr höndum RARIK og munu njóta forgangsorku frá Landsvirkjun næstu fjögur árin. Varmakerfið í heild sinni er þó mikið barn síns tíma og þarfnast endurnýjunar. Þar bæði um að ræða endurnýjun á dælu og tanki í stöðvarhúsinu sjálfu en ekki síður er dreifikerfið sjálft komið vel á tíma.

Fyrir nokkru hóf veitufyrirtækið að bora við svokallaðan Dagmálalæk í því skyni að kanna hitastig við berggang á því svæði. Niðurstöður þeirrar borunar ákveðin vonbrigði en stígull reyndist ekki nægilega góður. Hugsanlega verður prófað að bora innar í firðinum ellegar í Vestdal en verið er að meta næstu skref

Fram kom í máli framkvæmdastjóra HEF-veita á íbúafundi í Herðubreið fyrir tæpri viku að fyrirtækið hafi sérstaklega sótt um styrki úr glænýjum jarðhitaleitarsjóð sem umhverfis-, orku og loftlagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, kom á fót og skal eingöngu styrkja jarðhitaleit á svæðum þar sem aðeins er notast við rafmagn eða olíu til húshitunar. Þar á meðal um styrki til beinnar jarðhitaleitar, til kaupa á varmadælu og jöfnunartanki í stöðvarhús og jafnframt til endurnýjunnar dreifikerfisins í Seyðisfjarðarbæ.

Umsóknarfrestur í sjóðinn rann út í byrjun þessa mánaðar en ekki hefur verið tilkynnt um hvaða aðilar verða fyrir valinu að þessu sinni. Sjóðurinn hefur alls einn milljarð til ráðstöfunar til næstu þriggja ára.