Skip to main content

Hugur Vopnfirðinga leitar helst í austur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. feb 2022 14:57Uppfært 11. feb 2022 15:00

Vopnfirðingar vilja helst sameinast inn í átt Austurlandi, ef marka má umræður á íbúafundi um sameiningarmál þar í gær. Sveitarfélagið á í dag í mestu samstarfi við Múlaþing af öllum sveitarfélögum.


Fundurinn gær var þriðja skrefið í vinnu sem sveitarstjórn samþykkti að hefja á síðasta ári, þegar stuðningur bauðst til að vinna greiningarvinnu á sameiningarkostum. Í sumar voru haldnar tvær vinnustofur með kjörnum fulltrúum og starfsfólki. RR ráðgjöf, sem hélt utan um sameiningarferli Múlaþing, vinnur fyrir hreppinn og skilar af sér minnisblaði með niðurstöðum fyrir kosningar.

Annar hvati að baki vinnunni er áhersla ríkisins á sameiningarsveitarfélaga þar sem fyrirséðar eru kröfur um að sveitarfélög hafi ákveðinn íbúafjölda eða geti sannað hvernig þau geti uppfyllt lögboðnar skyldur sínar.

Mest samstarf við Múlaþing

Róbert Ragnarsson frá RR ráðgjöf fór á fundinum yfir stöðuna hjá Vopnafjarðarhreppi, reynsluna af sameiningum og möguleikana. Hann sagði samstarf yfirleitt undanfara sameininga, sjaldgæft væri að sveitarfélög sem hefðu starfað saman sameinuðust. Tæknilega væri þó ýmislegt hægt, ekkert væri í lögum um að sveitarfélög þyrftu að liggja saman landfræðilega. Vopnafjörður gæti þess vegna sameinast Garðabæ.

Mest samstarf Vopnafjarðarhrepps í dag er við Múlaþing, á sviði félagsþjónustu, málefna fatlaðra, brunavarna og skólaþjónustu. Þá tekur Vopnafjörður þátt í margvíslegu austfirsku samstarfi og þar er tengingin sagnfræðilega sterkust. Að auki vinnur Vopnafjörður með Langanesbyggð að áformum um stórskipahöfn í Finnafirði en minna samstarf er við Þingeyjasýslur.

Tveir kostir eru til staðar þegar farið er í sameiningarviðræður. Í óformlegum viðræðum eru möguleikar til sameiningar kannaðir, þá geta sveitarfélög bæst við eða dregið sig út úr. Formlegar viðræður enda á móti með að kosið er um sameiningu og fæst þá styrkur frá ríkinu við vinnuna. Algegnt er að 10-12 mánuðir líði frá því að formlegar viðræður hefjast þar til niðurstaða liggur fyrir. Róbert sagði að ljóst yrði að ekkert myndi gerast í sameiningarviðræðum Vopnafjarðarhrepps á þessu kjörtímabili en vinnan nú gæti nýst á því næsta.

Hár meðalaldur veldur vanda

Samkvæmt nýjum lögum um sveitarfélög eiga sveitarfélög að vera með að lágmarki 1000 íbúa eftir kosningar 2026. Íbúafjöldi Vopnafjarðar hefur haldist stöðugur um 660 manns síðustu ár. Spá Byggðastofnunar gerir hins vegar ráð fyrir talsverðri fækkun næstu 10 ár, verði um 520 árið 2029. Róbert benti þó á að Vopnafjörður hafi sýnt það síðustu misseri að sveitarfélagið geti vel staðið af sér högg.

Vandamálið er hár meðalaldur. Greining RR ráðgjafar hefur sýnt að hlutfall íbúa á aldrinum 25-54 ára, sem er sá aldur sem vinnur mest og greiðir skatta ásamt því að eiga börn, er 33,5% í Vopnafjarðarhreppi. Það er talinn veikleiki hjá sveitarfélögum sé hlutfallið undir 39%. Hlutfall karla og kvenna er nokkuð jafnt, en algegnt er á landsbyggðinni að karlar séu töluvert fleiri en konur. Róbert sagði lýðfræðina almennt í góðum málum á Vopnafirði en benti á að þessir þættir yrðu meðal þeirra sem skoðaðir yrðu þegar styrkur fámennra sveitarfélaga yrði metinn í framtíðinni.

RR ráðgjöf hefur einnig skoðað fjármál sveitarfélagsins. Staðan hefur verið erfið vegna loðnubrests og Covid-faraldursins. Vonir standa hins vegar til að afkoman batni hratt á næstu árum. Skuldahlutfallið er 78%, langt frá 150% hámarkinu og á að lækka áfram. Samkvæmt síðasta ársreikningi myndu 432 milljónir fylgja Vopnafjarðarhreppi frá ríkinu við sameiningu.

Sex kostir greindir

Róbert sagði nokkra valkosti til sameiningar hafa verið nefnda umfram aðra á vinnustofunum í sumar og þeir kostir hefðu verið greindir frekar: Sameiningu við Múlaþing, við Langanesbyggð, við Langanesbyggð og Múlaþing, við Fjarðabyggð, Austurland allt og loks við nýtt sveitarfélag í Þingeyjasýslum.

Sem fyrr segir er samstarfið mest við Múlaþing. Í þjónustukjarnann á Egilsstöðum eru 127 íbúar og íbúar yrðu 5.700. Ekki kæmi sameiningarstyrkur frá ríkinu til Múlaþings sem fékk sitt fyrir tveimur árum. Skuldahlutfallið yrði 136%, en eins og Róbert benti á tókust nær öll sveitarfélög á við fjárhagserfiðleika í Covid-faraldrinum.

Við sameiningu við Langanesbyggð yrði til um 1200 manna sveitarfélag, með þeim fyrirvara að kosið verður um sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps í lok mars. Skuldahlutfallið yrði 83% og heildarstyrkur til sameiningar 864 milljónir. Um 70 km skilja að Þórshöfn og Vopnafjörð. Með Múlaþingi yrði íbúafjöldinn ríflega 6200.

Sameining við Þingeyjasýslur byggi til 2000 manna sveitarfélag. Skuldahlutfallið yrði 65% þótt mikið hafi verið lagt í framkvæmdir hjá Skútustaðahreppi í faraldrinum. 132 km skilja að Vopnafjörð og Reykjahlíð.

Frá Vopnafirði til Reyðarfjarðar eru 160 km. Sameining við Fjarðabyggð myndi skila 5900 manna sveitarfélagi. Skuldahlutfallið yrði 110% en sveitarfélagið yrði að mati RR ráðgjafar fjárhagslega sterkt, meðgjöf ríkisins yrði 1,1 milljarður. Mikil líkindi eru milli samfélaganna sem byggja á sjávarútvegi.

Austurland, frá Vopnafirði til Djúpavogs, yrði sveitarfélag með 11.200 íbúa og skuldahlutfall upp á 124%.

Mestur áhugi á Múlaþingi

Um 50 manns sóttu fundinn sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi. Þar var lögð fram rafræn könnun sem opin var þar til nú á hádegi. Þar var meðal annars spurt út í hvað Vopnfirðingar skiptu mestu máli ef farið yrði í sameiningarviðræður.

Mest áhersla var í að halda grunnþjónustu á staðnum, skólum og hjúkrunarheimili, auk þess sem rekstur hafnarinnar yrði tryggður. Ein af forsendum þess væri að heimastjórn yrði til staðar, líkt og í Múlaþingi. Svarendur sáu fyrir sér að sameining gæti aukið fjölbreytni í félagsstarfi og atvinnulífi auk bættra samgangna, svo sem jarðganga til Héraðs og tíðara flugs.

Þá var kannað hvaða sameiningarkost fundargestir vildu helst. Múlaþing fékk áberandi flest atkvæði, þar á eftir Austurland allt og síðan Langanesbyggð. Töluvert færri vildu Fjarðabyggð eða Langanes og Múlaþing saman. Fæstir vildu sameinast Þingeyingum.

Af þessu virðist ráða að hugur Vopnfirðingar leitar helst inn á Austurlandið. Einhverjir horfa þó til Langanesbyggðarinnar. Í athugasemdum frá fundinum má sjá fólk minnast á að það óttist að vera jaðarbyggð, enda hefur komið fram í rannsóknum að íbúar þeirra séu óánægðastir með sameiningar. Á fundinum í gærkvöldi benti Róbert á að reynt hefði verið að læra af þessum og væru heimastjórnirnar hugsaðar til að auka styrk jaðranna. Þá væri áberandi mest óánægja þar sem skólum hefði verið lokað.

Alls svöruðu 47 lokaspurningunni um hvort rétt væri að Vopnafjörður hæfi sameiningarviðræður. Jafngildir það rúmum 9% íbúa hreppsins á kosningaaldri. Af þeim töldu 32 eða ríflega 2/3 rétt að gera að, 8 eða 17% svöruðu nei en 7 eða 15% voru óvissir.