Hulk Hogan setur glímuhátíð á Reyðarfirði í kvöld

hulk_hogan.jpgVöðvatröllið og stórleikarinn Hulk Hogan mun setja glímuhátíð Íslands í íþróttahúsinu á Reyðarfirði í kvöld Hann afhendir einnig verðlaun á mótinu sem fram fer á morgun. Þóroddur Helgason, glímuforsprakki, vonast til að fylla húsið af fólki.

 

 

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Um helgina fer hin árlega Íslandsglíma fram á Reyðarfirði. Keppt verður um hina fornfrægu verðlaunagripi, Grettisbeltið og Freyjumenið. Mótið hefst 2. apríl í íþróttahúsinu á Reyðarfirði en sérstök setningarhátíð verður haldin þar klukkan 20:00, föstudaginn 1. apríl.

Sjálfur Hulk Hogan mun setja hátíðina með formlegri athöfn í íþróttahúsinu. Hogan gerði garðinn frægan á sínum tíma sem leikari, tónlistarmaður og síðast en ekki síst atvinnumaður í amerískri fjölbragðaglímu. Á sínum tíma varð Hulk Hogan 12 sinnum heimsmeistari í fjölbragðaglímu (World Championship Wrestling). Hann hefur leikið í ótal mörgum kvikmyndum en einna hæst ber að nefna Rocky III, Gremlins 2, Mr. Nanny og Spy Hard. 

Þeir Þóroddur Helgason, formaður Glímuráðs Vals, og Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, munu verða Hulk innan handar við setningu þessa merka móts sem haldið hefur verið frá því árið 1906. Að keppni lokinni mun Hulk annast verðlaunaafhendinguna.

Dagskrá mótsins
Íslandsmótið hefst snemma á laugardeginum þegar sjálft grunnskólamótið byrjar kl. 09:30 í íþróttahúsinu á Reyðarfirði og sveitaglíman þar strax á eftir. Keppnin um Grettisbeltið og Freyjumenið byrjar kl. 16:00.

Í samtali við Austurgluggann sagði Þóroddur Helgason að hann vonaðist til þess að fylla íþróttahúsið af gestum.  Gert er ráð fyrir um það bil 70 þátttakendum. Glímuráð Vals annast mótshaldið, sér um að útvega alla starfsmenn og skipulag í samráði við Glímusamband Íslands.

Grettisbeltið  einn elsti verðlaunagripur sem keppt er um á Íslandi

Íslandsglíman hefur verið haldin árlega frá 1906 að fimm árum undanskildum á árum fyrri heimstyrjaldar. Upphaf Íslandsglímunnar má rekja til Akureyrar í byrjun 20. aldarinnar en þá var Glímufélagið Grettir stofnað. Glímufélagið lét smíða Grettisbeltið og efndi til fyrstu Íslandsglímunnar 21. ágúst 1906.

Grettisbeltið er því elsti verðlaunagripur sem keppt er um á Íslandi. Allir forsetar ÍSÍ frá upphafi hafa einu sinni eða oftar afhent sigurvegaranum Grettisbeltið.
Fjölmennasta Íslandsglíman var 1907 en þá kepptu 24 en fámennasta Íslandsglíman var 1913 og 1952 en þá kepptu aðeins 4.

Keppendur í Íslandsglímunni 2011
Grettisbeltið
Pétur Eyþórsson   Ármann
Jón Smári Eyþórsson   Ármann
Pétur Þórir Gunnarsson  Mývetning 
Bjarni Þór Gunnarsson  Mývetning
Einar Eyþórsson   Mývetning
Sindri Freyr Jónsson   UÍA  
Hjalti Þórarinn Ásmundsson  UÍA
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson UÍA
Magnús Karl Ásmundsson  UÍA 
Stígur Berg Sophusson  Herði  

Freyjumenið
Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir  GFD  
Laufey Frímannsdóttir  UÍA  
Hekla María Samúelsdóttir  UÍA
Þuríður Lillý Sigurðardóttir  UÍA
Eva Dögg Jóhannsdóttir  UÍA
Ragnheiður Jara Ragnarsdóttir UÍA
Hugrún Geirsdóttir   HSK  
Marín Laufey Davíðsdóttir  HSK
Brynhildur H. Sigurjónsdóttir  HSK

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.