Hundinum Mýslu bjargað úr sjálfheldu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. júl 2023 16:02 • Uppfært 17. júl 2023 16:03
Björgunarsveitir í Fjarðabyggð fengu nokkuð sérstakt útkall í gær þegar óskað var eftir aðstoð vegna hunds sem endaði í sjálfheldu eftir að hafa hlaupist frá eiganda sínum í fjallgöngu. Sigið var niður á klettasyllu til að sækja hundinn.
Útkallið barst klukkan fjögur í gærdag og fóru félagar úr björgunarsveitunum í Neskaupstað, Reyðarfirði og Eskifirði upp á Einstakafjall, sem skilur að Vöðlavík og Sandvík en þær eru milli Norðfjarðar og Eskifjarðar.
Mýsla og eigandi hennar höfðu verið þar á göngu. Meðan eigandinn virti fyrir sér útsýni hljópst Mýsla á brott og hvarf niður fyrir klettabrún. Maðurinn reyndi að ná til hennar en snéri við og kallaði eftir aðstoð þegar hann var nærri kominn í sjálfheldur sjálfur.
Hjálpinni feginn
Hafliði Hinriksson, einn þeirra björgunarsveitarmanna sem fóru á vettvang, segir hópinn fljótlega hafa komið augu á Mýslu þar sem hún var í klettarák, einum 70 metrum fyrir neðan brún fjallsins. Hópurinn setti upp fjallabjörgunarkerfi og kom það í hlut Hafliða að síga niður eftir tíkinni. Hún var fegin þegar hjálpin kom um þremur og hálfum tíma eftir útkallið.
„Ég var undir það búinn að hún væri stygg eftir veruna þarna en hún var greinilega orðin leið á að hanga þarna og spólaði upp klettinn á móti mér, vel fegin að sjá mig koma.“
Hafliði kom Mýslu fyrir í bakpoka sínum áður en þau voru hífð upp. „Hún var kannski ekki alveg á því að koma í pokann til að byrja með en pokinn var góður því ég gat rennt honum utan um hana. Síðan herti ég vel að áður en við vorum hífð upp.“
Vanari að bjarga lömbum
Fagnaðarfundir urðu með Mýslu og eiganda hennar þegar upp á fjallið var komið, þótt sést hafi á fasi Mýslu að hún gerði sér grein fyrir að hún hefði ekki gert rétt. Lítið er ljóst um hvers vegna Mýsla, sem er af terrier kyni, hljópst á brott en hún er vön ferðalögum sem þessum.
Hafliði segir sjaldgæft að björgunarsveitirnar á Austurlandi fái útkall sem þetta. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég man eftir að farið sé eftir hundi hér en maður hefur heyrt af því annars staðar. Við förum einstaka sinnum eftir lömbum. Það var hægt að bjarga Mýslu á öruggan hatt og það var góð æfing að fá svona krefjandi verkefni.“
Mýsla tók mjög vel á móti Hafliða. Mynd: Landsbjörg