Skip to main content

Húsakapall lagður á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. mar 2022 15:54Uppfært 08. mar 2022 17:20

Nefndir Múlaþings skoða nú umfangsmiklar breytingar á fasteignum sveitarfélagsins á Djúpavogi. Meðal annars er verið að leita aðstöðu til framtíðar fyrir slökkvilið og Ríkharðssafn.


Í nýjustu fundargerð heimastjórnar Djúpavogs segir að mikilvægt sé að „húsakapallinn“ í bænum gangi upp þannig þær fasteignir sem undir eru fái hlutverk til framtíðar.

Þar útlistar heimastjórnin hvernig hún sjái fyrir sér að kapallinn gangi upp. Í fyrsta lagi verði byggð björgunarmiðstöð sem hýsi alla viðbragðsaðila og mögulega áhaldahús sveitarfélagsins. Þá verði núverandi slökkvistöð seld en mögulega með kvöðum um að henni verði breytt í íbúðir eða þjónustuhúsnæði.

Leita að húsnæði fyrir Ríkharðssafn

Á Djúpavogi hefur undanfarin ár verið unnið að endurgerðum Gömlu kirkjunnar og Faktorshúss, en ekkert er enn ákveðið um nýtingu þeirra. Múlaþing skipaði í lok síðasta árs starfshóp sem skila á af sér tillögum um framtíðarnýtingu þeirra eigi síðar en í apríl. Hópurinn hefur þó sent frá sér upplýsingar sem ræddar hafa verið af öðrum nefndum. Í nýlegri bókun byggðaráðs segir að forgangsatriði sé að finna lausnir til framtíðar fyrir Ríkharðssafn.

Sýning á verkum Ríkharðs Jónssonar hefur til þessa verið í Löngubúð. „Yfir safninu er sérstök stjórn sem unnið hefur að því að finna framtíðarlaus og ýmsar hugmyndir verið uppi. Mér hefur verið falið að hóa saman mannskap til að koma þessu í vænlegan farveg. Eins og ég skynja umræðuna innan sveitarfélagsins er fullur vilji til að leysa þetta.

Menn eru meðvitaðir um mikilvægi safnsins og engin áform önnur en finna vænlega lausn. Ég veit að þetta eru loðin svör en ég veit að við finnum góð svör,“ svaraði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, á íbúafundi á Djúpavogi nýverið þegar spurt var út í málefni safnsins.

Áhugi á Faktorshúsi

„Það eru bæði gamlar og nýjar hugmyndir komnar fram en ekkert komið í ákvarðanatökuferli,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, formaður heimastjórnar, þegar hann um ráðstöfun Faktorshússins.

Hann staðfesti þó að bæði Ríkharðssafn og Fiskeldi Austfjarða hefðu sýnt áhuga á Faktorshúsinu. „Þetta eru helstu hugmyndirnar. Bæði safnið og fiskeldið geta farið á aðra staði. Við þurfum að skoða þetta í heild til að fá skýrari niðurstöðu,“ sagði Helgi Hlynur og rifjaði upp að þegar farið hefði verið af stað í endurgerðina hefði verið rætt um að gera þar um samvinnuhúsi, það er starfsaðstöðu fyrir minni fyrirtæki og einyrkja.

Kapallinn þarf að ganga upp

Heimastjórn sér fyrir sér að Gamla kirkjan verði sýningarrými og/eða fundaraðstaða fyrir litla fundi en í Faktorshúsi verði útbúin skrifstofuaðstaða. Þá leysi Múlaþing til sín Sambúð og hús Rauða krossins á staðnum sem mögulega geti nýst undir Ríkharðssafn.

Auk þessa telur heimastjórnin að huga þurfi að aðstöðu fyrir bókasafn og önnur söfn, fyrir störf í fjarvinnu og skólastarfsemi.

„Það er margt sem fylgir ef þetta fer af stað sem heimastjórn og íbúar þurfa að meta vel. Um leið og ein ákvörðun er tekin þarf allt að ganga upp,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, formaður heimastjórnarinnar á íbúafundi nýverið.