Húsnæði Vegagerðarinnar í Fellabæ fyrst í röðinni í yfirhalningu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. ágú 2025 14:08 • Uppfært 21. ágú 2025 14:10
Aðeins rúmri 1,5 milljón króna munaði á tveimur lægstu tilboðunum í breytingar og viðhald á þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar í Fellabæ. Framundan eru endurbætur á þjónustustöðvum Vegagerðarinnar víða um land og er stöðin í Fellabæ fyrst í röðinni.
Þrjú tilboð bárust í verkið en þau voru opnuð í fyrradag. Úlfsstaðir, sem mikið hafa starfað á Seyðisfirði, buðu 119,2 milljónir en MVA tæpa 121 milljón. Þriðja tilboðið frá Eðalmönnum, nýlegu smíðafyrirtæki á Egilsstöðum, var upp á 134,6 milljónir. Áætlaður verktakakostnaður var 110,7 milljónir.
Þjónustumiðstöðin í Fellabæ samanstendur af tveimur byggingum. Annars vegar geymsluskemmu og hins vegar tveggja hæða stálgrindarhúsi með vélasal, skrifstofum og starfsmannaaðstöðu. Hluti framkvæmdanna felst í að tengja byggingarnar saman með lyftuhúsi.
Þá stendur til að endurinnrétta skrifstofu- og starfsmannaaðstöðuna. Hreinsað verður út af efri hæðinni þar sem sú hún er. Aðgengismál verða bætt og meðal annars komið upp skrifstofum fyrir starfsmenn sem tímabundið koma til að vinna í Fellabæ. Eins þarf að ganga frá lóðinni í kring.
Aðalbyggingin var reist árið 1971. Húsin eru því komin nokkuð til ára sinna og tími þykir vera kominn á andlitslyftingu. Framundan eru endurbætur á öðrum þjónustustöðvum Vegagerðarinnar.
„Þetta eru orðin gömul hús sem þurfa endurnýjun og það er gleðilegt að við séum fyrst í röðinni,“ segir Loftur Jónsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi.
Verklok eru 8. maí á næsta ári.