„Hvað eruð þið að greiða fyrir Seyðisfjörð?“
Andstæðingar fiskeldis á Seyðisfirði sóttu hart að talsmönnum fyrirhugaðs eldis þar á íbúafundi í gærkvöldi. Meðal annars var tekist á um staðsetningu kvía, greiðslur fyrir eldið og samvinnu við samfélagið.Tæp átta ár eru liðin síðan ferlið að baki umsóknum Fiskeldis Austfjarða um 10 þúsund tonna fiskeldi í Seyðisfirði hófst. Um áramótin skilaði Skipulagsstofnun áliti sínu á mati á umhverfisáhrifum. Þar voru margvíslegar athugasemdir sem ganga áfram til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar sem gefa síðan út leyfi.
Á fundinum í gær sagði Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa, systurfyrirtækis Fiskeldis Austfjarða, að stefnt væri að setja út seyði í kvíar í Sörlastaðavík og Skálanesbót haustið 2023, en síðar bætist við eldissvæði í Selstaðavík. Í haust og næsta vetur verið byrjað að ráða og þjálfa starfsfólk til starfa. Sextán starfsmenn þarf í almennt eldi og tvö stöðvarstjóra.
Frammíköll og mótmælaskilti
Áformin hafa mætt harðri andstöðu, svo mjög að Skipulagsstofnun tók sérstaklega fram í áliti sínu að slíkt hefði ekki áður sést gagnvart fiskeldi hérlendis. Í byrjun desember 2020 skrifaði yfir helmingur íbúa á kosningaaldri undir undirskriftalista gegn fiskeldinu. Sá listi er ekki óumdeildur. „Sú kosning ekki hlutlaus, þið vitið það,“ heyrðist kallað yfir salinn þegar talið barst að listanum í gær.
Það var þó eina röddin úr salnum sem nokkurn tíman virtist lýsa yfir nokkrum stuðningi við fiskeldið, utan frummælendanna þriggja, sem auk Jens Garðars voru Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds, laxasláturhúss á Djúpavogi og dr. Þorleifur Einarsson, fiskeldisfræðingur. Í anddyri bíósalar Herðubreiðar hafði verið komið fyrir skiltum þar sem fyrirhuguðu eldi var mótmælt.
Þess utan virtust andstæðingar eldisins eiga salinn og kölluðu þeir nokkrum sinnum frammi fyrir frummælendunum með athugasemdir við málflutning þeirra. Oftar en einu sinni þurfti Jens Garðar að óska eftir því að framsögurnar yrðu kláraðar, síðan yrði tekið við spurningum.
Stangast kvíarnar á við Farice-strenginn?
Fyrstur á mælendaskrá var Sigfinnur Mikaelsson, íbúi á Seyðisfirði, sem sagði reglur um helgunarsvæði Farice-strengsins, sem liggur inn Seyðisfjörð, þýða að eldiskvíarnar rúmist ekki í firðinum. Strengurinn liggur inn Seyðisfjörð og samkvæmt lögum um fjarskipti skulu net eða önnur veiðarfæri vera í að minnsta kosti 463 metra fjarlægð frá honum.
Sigfinnur sagði að viðbættri 120 metra fjarlægð frá landi, sem er yfirráðasvæði sjávarjarða, væri ekki lengur pláss fyrir kvíarnar. Í Sörlastaðastaðavík sé plássið 120 metrar en 322 metrar í Selstaðavík. „Þetta kemst ekki fyrir,“ sagði Sigfinnur og spurði hvort Fiskeldi Austfjarða ætlaði að draga umsóknina til baka eða fá lögunum breytt. Jens Garðar svaraði að hægt að útbúa kvíaramma og tengingar þannig að þær rúmuðust innan þessa svæða en það væri dýrara. „Við getum verið innan helgunarsvæða, það er á hreinu,“ sagði hann en fékk „nei“ úr salnum.
Í framsöguræðu sinni líkti Jens Garðar saman Seyðisfirði, sem væri 870 metra breiður þar sem hann væri þrengstur, og Súesskurðinum sem er 205 metra breiður. Sú samlíking vakti litla hrifningu í salnum. Þar sagði hann einnig að kvíastæðin takmörkuðu ekki siglingamöguleika, engar athugasemdir hefðu borist frá Vegagerðinni, Landhelgisgæslunni eða Smyril-Line. Í umsögn Vegagerðarinnar um umhverfismatið segir að hafnaryfirvöld þurfi að gæta að leiðbeiningar um siglingaleiðir séu fullnægjandi og að hafa verið samráð um það áður en rekstrarleyfi verði veitt.
Stendur ekki til að fóðra frá Noregi
Jón Kaldal, ritstjóri hjá The Icelandic Wildlife Fund eða Íslenska umhverfissjóðnum, kvaðst vera kominn austur í boði nokkurra Seyðfirðinga. Jón sat á fremsta bekk og hafði sig nokkuð í frammi með frammíköllum. Hann kynnti sig sem „afruglara“ í umræðunni og hann þekkti málin „mjög vel.“ Hann spurði meðal annars út í fullyrðingar um starfsmannafjölda, þar sem fram kom í glærum Elísar að störfum fjölgaði ekki við slátrun til framtíðar í sama mæli og framleiðsla ykist, og hvort nokkuð kæmi í veg fyrir að fiskurinn yrði fóðraður frá Noregi.
„Já, það er hægt en stendur ekki til. Ég get fullvissað fólk um að ekki stendur til að fara með fóðrunina til Noregs. Það skiptir máli að fóðrararnir séu í beinu sambandi við eldisstöðvarnar,“ svaraði Jens Garðar. Elís Hlynur sagði fjölgunina ekki línulega, enda væri hámarksskilvirkni hjá Búlandstindi ekki enn náð, sem stæði í alþjóðlegri samkeppni. Þótt einhver störf töpuðust við tækniframfarir yrðu önnur til. Jens Garðar sagði að beinum störfum hjá eldisfyrirtækjum erlendis hefði fækkað þegar eldið stækkaði, í staðinn færu þau til sérhæfðra þjónustufyrirtækja. Um möguleika á sláturhúsi á Seyðisfirði sagði hann að ekki væru uppi áform um sláturhús annars staðar á Austfjörðum en Djúpavogi á næstu árum. Fleiri byggðarlög en Seyðfirðingar hefðu þó sýnt áhuga á þeim.
Austfirðir henta ekki í landeldi
Ingólfur Ásgeirsson, samstarfsmaður Jóns hjá Icelandic Wildlife Fund, sagði Norðmenn telja sjókvíaeldi tilheyra sögunni. Þar væri framtíðin í landeldi, líkt og nokkur íslensk fyrirtæki, áforma. Hann bætti við að nýlega hefðu eldisleyfi í nokkrum norskum fjörðum verið boðin upp þar sem hvert tonn hefði kostað 3,5 milljónir íslenskra króna. „Ef 10.000 tonna eldi væri boðið upp þá væru það 35 milljarðar króna. Hvað eruð þið að greiða fyrir Seyðisfjörð,“ spurði Ingólfur.
Jens Garðar hafnaði því að norsk stjórnvöld væru að hægja á eldi, þvert á móti að bæta í. Hann benti á að leyfin í Noregi væru ótímabundin og eigendur þeirra gætu gert það sem þeir vildu, þar á meðal selt þau. Á Íslandi væru þau leigð til 16 ára. „Ég held að ef horft er á hvað við borgum í skatta og gjöld þessi 16 ár þá nálgumst við skattana í Noregi,“ sagði Jens. Þegar eftir því var gengið hvað Fiskeldi Austfjarða myndi í raun greiða fyrir eldið í Seyðisfirði kvaðst hann ekki hafa þá tölu.
Þá sagði Jens Garðar að aðstæður á Austfjörðum og Vestfjörðum hentuðu ekki í landeldi, sem þurfi mikinn sjó, rafmagn og pláss. „Austfirðir og Vestfirðir hafa hvorki sjávarhitann né undirlendið. Við nýtum þau tækifæri sem við höfum til að skapa velsæld og tækifæri fyrir íbúa, þau felast í fjörðunum okkar. Landeldi er því miður ekki uppi á borðunum fyrir okkur Austfirðinga.“
„Ætlið þið samt að koma?“
Sem fyrr segir tók Skipulagsstofnun sérstaklega fram að samfélagsleg áhrif eldisins gætu orðið neikvæð ef ekki tækist að skapa sátt og slá á mikla óánægju. Nokkrir fundargesta bentu á þetta og spurðu hvernig Fiskeldi Austfjarða hygðist ná til íbúa. „Meirihluti Seyðfirðinga vill ykkur ekki, getur ekki verið að þar standi hnífurinn í kúnni varðandi samstarfið?“ spurði einn íbúa. „Jafnvel þótt við viljum ykkur ekki, ætlið þið samt að koma,“ kallaði annar úr sal. Þá var spurt hver munurinn væri á styrkjum fiskeldisfyrirtækjanna til íþrótta- og félagsstarfs, sem Jens Garðar hafði áður kynnt, og mútum. Bæjarfulltrúinn Hildur Þórisdóttir spurði hví ekki hefði verið fundað fyrr með íbúum fyrst leyfin hefðu verið sjö ár í vinnslu.
Jens Garðar svaraði oftar en einu sinni að hann vonaðist til að fundurinn í gærkvöldi yrði aðeins sá fyrsti milli Fiskeldis Austfjarða og Seyðfirðinga til að finna hvernig best væri að vinna málið sameiginlega. „Ég skal koma í hverjum mánuði og ræða við ykkur. Aðdragandinn hefur verið langur í þessu sjö ára ferli og á stórum hluta þess hefði verið of snemmt að eiga íbúafund. Við hefðum samt getað komið fyrr en við erum hér núna,“ sagði hann.
Jens Garðar, sem er uppalinn á Eskifirði og býr þar, sagðist hafa trú á að fiskeldi fæli í sér tækifæri fyrir samfélagið, hann hefði séð það á Eskifirði og Djúpavogi. Fyrirtækin vildu koma að eflingu mannlífs í sínu nærumhverfi og þess vegna styrktu þau félagsstarf. „Ég á þetta sem þátt í að vera hluti af samfélaginu.“