Hvað gerist á Austurlandi ef gýs í Bárðarbungu?
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. maí 2025 16:29 • Uppfært 05. maí 2025 16:31
Ólíklegt er að gos í Bárðarbungu hefði mikil bein áhrif á Austurlandi, en óbeinu áhrifin gætu orðið töluverð af gosi undir jökli. Mestar líkur á gos myndi valda tímabundnum óþægindum með öskufalli eða gasmengun einstaka daga.
Óvissustigi var lýst yfir vegna jarðskjálfta í Bárðarbungu um miðjan janúar. Því var fljótlega aflétt en síðan hafa reglulega mælst snarpir jarðskjálftar.
„Jarðskjálftarnir gáfu okkur til kynna að eldstöðin væri tilbúnari í næsta gos en við höfðum haldið. Að það styttist í atburði getur þýtt áratug eða á morgun. Aukin skjálftavirkni er merki um meiri kvikuþrýsting en við höfum engar leiðir til að spá fyrir um tímarammann,“ segir Benedikt. G. Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Hraungos utan jökuls líklegast
Bárðarbunga er stór, öflug og virk eldstöð. Askjan sjálf í norðvestanverðum Vatnajökli er nánast beint yfir möttulstróknum. Hún teygir sig enn víðar eins og dæmin sanna. Þannig kom Holuhraunsgosið úr Bárðarbungu þótt hraunið sé í um 40 km fjarlægð í loftlínu.
„Það er ekki algengast að það komi gos undir jökli úr Bárðarbungu, frekar að það fari inn í sprungusveimana og komi út í Veiðivötnum, Holuhrauni eða í Dyngjuhálsi,“ segir Benedikt. Að sama skapi getur eldstöðin framkallað gos sunnar, í áttina að Grímsvötnum. Gosið í Gjálp árið 1996 er í flestra huga Bárðarbungugos, þótt það sé umdeilt meðal sérfræðinga.
Mikið gas úr Holuhrauni
Áhrifin af gosi á Austurland, sem önnur landssvæði, ráðast af því hvar gos kemur upp. Vægustu áhrifin eru trúlega af sprungugosi utan jökuls. Helst eru líkur á að gas bærist austur frá gosi norðan jökuls. Þá er mestar líkur á gasmengun þá daga sem vindátt stendur þannig. Austfirðingar muna margir eftir haustdögum 2014 þar sem blá móða lá yfir svæðinu.
Brennisteinstvíoxið (SO₂) er algengasta gasið úr eldgosum. Mengunin er almennt skaðlaus í litlu magni en getur valdið óþægindum. Þegar lofttegundin kemst í snertingu við vatn breytist hún í brennisteinssýru (H₂SO₃) sem veldur ryði á járni. Aftur eru áhrifin lítil en mengun getur orðið á grunnvatni og gróður skemmst.
Rétt er að muna að Holuhraunsgosið var stórt, frá því rann mesta hraun sem upp hefur komi á Íslandi í 230 ár eða síðan í Skaftáreldum.
Hamfaraflóð gæti eyðilagt brýr
Gos undir jökli er það sem áhyggjurnar beinast að. Í fyrsta lagi myndi það bræða jökulinn sem skapar flóðahættu. Hvar það flóð færi niður veltur á hvar gosið kæmi upp. Vatn úr Gjálpargosinu kom niður Skeiðarársand en gos úr Bárðarbungu sjálfri færi á móti líklegast niður Jökulsá á Fjöllum. Flóð niður farveg hennar gæti tekið af brýrnar yfir ána og þar með klippt á vegasamgöngur milli Austurlands og Norðurlands.
Gos í norðvestanverðri Bárðarbungu myndi á móti fara niður Skjálfandafljót og loks gæti gos til vesturs eða suðvesturs sent vatnsflauminn niður í Hágöngur og inn á Þjórsársvæðið.
Aska gæti fallið en varla í miklu magni
Eins gæti komið til sprengigoss, þar sem kvika kemst í snertingu við vatn þannig aska þeytist út í andrúmsloftið, eða hefðbundið öskugos sem er efnafræðilega eins en ekki jafn öflugt. Ólíklegt er þó askan úr slíkum gosum hefði veruleg áhrif á Austurlandi, jafnvel þótt gosið væri af þeirri stærðargráðu sem kom upp í Holuhrauni.
Staðsetningin skiptir mestu máli. Ef gos yrði undir Dyngjujökli, 30 km norðaustur af megineldstöðinni, eru um 70 km í loftlínu að næsta bæ á Austurland: Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Djúpivogur, sem er beint vestur af Bárðarbungu er 100 km frá henni.
„Mest öskufall er næst eldstöðinni en dregur hratt úr því. Þess vegna þyrfti mjög stórt gos til að valda verulegu öskufall á Austurlandi. Í réttri vindátt gæti hún dreifst hvar sem er. Líklegast yrði þetta smá salli sem myndi engu ógna, nema að gera yrði ráðstafanir á heiðum með búfénað og ferðafólk,“ segir Bendikt.
Hann bætir við að öskugos undir Dyngjujökli tæki fljótt af. Ísinn þar er ekki þykkur og myndi því bráðna fljótt þannig að gosið yrði hefðbundið hraungos. Ekki eru taldar líkur á kvikan geti náð enn austar, svo sem í Kverkfjöll.
Sprengigos ósennilegt í Öskju
En það eru fleiri eldfjöll sem Austfirðingar fylgjast með. Óvissustig hefur verið í gildi vegna Öskju frá í september 2021. Benedikt segir landið þar halda áfram að rísa, þó hægar en í fyrstu.
Sprengigos varð í Öskju árið 1875 sem olli miklum skaða á Austurlandi, einkum byggðinni í Jökuldalsheiði og Jökuldal. Ólíklegt er að slíkar hörmungar endurtaki sig. „Það sem gerðist þá er eitthvað sem gerist á 1000 ára fresti en ekki 100 ára. Það eru 3-4 dæmi um stór sprengigos úr Öskju undanfarin 11.000 ár. Það kæmi á óvart ef við fengjum jafn stóran viðburð á næstunni,“ segir Benedikt Gunnar.
Réttara er að muna að Askja gaus átta sinnum á síðustu öld, smávægilegum hraungosum. „Við gætum fengið öskugos úr vatninu en það yrði varla langvinnt né stórt,“ bætir Benedikt við. Mestar áhyggjur snúa að umferð ferðafólks á svæðinu en flest eldfjöll gefa fyrirvara með jarðskjálftum og því talið hægt að forða fólki í burtu.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.