Hvað kosta jarðgöngin?
Í skýrslu Vegagerðarinnar um jarðgangaáætlun til næstu 30 ára er að finna útreikninga á kostnaði við næstu jarðgöng. Þar er einnig að finna forsendur sem nýtast til að reikna út kostnað annarra jarðganga.
Í skýrslunni er að finna reiknaðan kostnað við þau jarðgöng sem eru á jarðgangaáætluninni sjálfri, Fjarðarheiðargöngum og síðan þaðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð.
Þar er einnig að finna forsendur sem nýtast til að reikna kostnað við önnur göng eða gangahugmyndir. Kílómetri af göngum kostar nú 3,1 milljarð, km af af brúum 1 milljarð og malbikaður vegur 130 milljónir (0,13 milljarða) á km.
Í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri fyrir Vegagerðina í fyrra er að fyrra upplýsingar um lengd vega, brúa og jarðganga fyrir þá kosti sem þar eru teknir til skoðunar. Þar undir eru Hellisheiðargöng, Lónsheiðargöng og Breiðdalsheiðar- og Berufjarðarskarðsgöng.
Í skýrslu starfshóps um jarðgangakosti á Austurlandi frá 2019 er að finna svipaðar upplýsingar fyrir þau göng sem þar eru greind, þótt ekki sé farið í brúargerðina. Göngin þar eru Fjarðarheiðargöng, tengingin áfram til Norðfjarðar um Mjóafjarðar sem og tenging frá Mjóafirði upp á Fljótsdalshérað, í Slenjudal.
Kostnaður fyrir Fjarðarheiðargöng og þaðan áfram til Norðfjarðar, svokallaða hringtengingu, er reiknaður út í skýrslu Vegagerðarinnar. Sá kostnaður virðist inniheldur vegina líka.
Fjarðarheiðargöng eru nú talin kosta 46,5 milljarða og tengingin áfram 41,5 milljarða og hringtengingin því samanlagt 88 milljarða. Miðað við gefnar forsendur þá kosta göng undir Slenjudalsheiði 29,9 milljarða. Sú tala er með vegum en án brúa. Það þýðir að svokölluð T-göng kosta 70,7 milljarða. Það gerir þau 17,3 milljörðum eða rúmum 19% ódýrari en hringtenginguna.
Séu bornir saman kostir sem mest hafa verið til umræðu á Austurlandi að undanförnu sést að T-göngin er 29,2 milljörðum eða rúmum 62% dýrari en Fjarðarheiðargöngin. Göng frá Seyðisfirði til Norðfjarðar eru fimm milljörðum ódýrari heldur en Fjarðarheiðargöng.
Í drögum að samgönguáætlun 2024-38, sem kynnt var í síðustu viku, er reiknað með 46,5 milljörðum alls í gerð Fjarðarheiðarganga. Athugasemdafrestur við áætlunina er út júlí en hún verður lögð fram og rædd á Alþingi í haust.
Í samantekt Vegagerðarinnar er settur fyrirvari um óvissu og hún sögð á bilinu -30% til +70% fyrir verkefni sem eru enn á skilgreiningarstigi. Það eru sem sagt allir kostir aðrir en Fjarðarheiðargöngin sem eru fullhönnuð. Samkvæmt samgönguáætluninni er óvissa við þau -5% til +15%.
Mynd: Mannvit/Vegagerðin