Hvalreki gerbreytti viðhorfi Norðmanna til mengunar sjávar
Viðhorf til rusls í hafinu hefur gerbreyst í Noregi síðan hval, fullan af plastpokum, rak þar á land fyrir sjö árum og gangskör verið gerð í hreinsun stranda. Þorri þeirra hluta sem fljóta um í sjónum virðast koma frá sjávarútvegi. Erindrekar frá norskum samtökum komu við á Stöðvarfirði síðasta sumar til að kanna stöðuna á Íslandi og tóku til hendinni þar í leiðinni.„Mengun í hafinu er staðbundið vandamál að því leyti að ruslið rekur á fjörur á ákveðnum stað, en líka alþjóðlegt því straumar bera það til og frá yfir landamæri. Ísland og Noregur eru nágrannar,“ segir Rolf-Ørjan Høgset, stofnandi samtakanna In the Same Boat (Í sama báti) og skipstjóri á Fonn, skútu sem samtökin gera út.
Rolf ásamt fjögurra manna áhöfn sigldi á fjórum dögum seinnipart júlí yfir hafið frá Helgeland í Noregi til Stöðvarfjarðar. Hópurinn dvaldi þar í þrjá daga. Í áhöfninni voru sjálfboðaliðar samtakanna en líka starfsmenn Hold Norge Rent (Hreinsum Noreg) til að kynna sér stöðuna og mynda grunn að samstarfi víðar.
Skapa hvata til að koma með rusl
Rolf og Carl Pedersen, verkefnastjóri frá Hold Norge Rent, segja viðhorf til mengunar hafsins hafa gerbreyst í Noregi frá árinu 2017. Í byrjun þess árs rak þar á land hval sem við nánari skoðun reyndist hafa gleypt hátt í 40 plastpoka. Norska ríkið setti hreinsun hafsins og strandlengjunnar í forgang með að heita 200 milljónum norskra króna, andvirði 2,5 milljarða íslenskra króna, árlega til þess.
Fyrirtæki og félagasamtök geta síðan sótt um styrki til ríkisins fyrir verkefni. Um 800.000 sjálfboðaliðar taka árlega þátt í hreinsun stranda þar en félagasamtök og fyrirtæki leggja til fólk. Sérstök vika er þar helguð hreinsun stranda.
Fyrir utan beina styrki er reynt að skapa hvata eftir öðrum leiðum. Til dæmis að þeir sem hreinsa strendur beri ekki kostnað heldur taki móttökustöðvar annað hvort frítt við rusli eða hægt sé að fá endurgreitt gegn framvísun kvittunar.
Norski pokasjóðurinn hefur komið myndarlega að hreinsuninni og sett sér markmið um að hreinsa 40% strandlengjunnar. Það er ærið verk. Strandlengja Noregs er um 100.000 kílómetrar þegar allar eyjar og annað er talið, sú næst lengsta í heimi á eftir Kanada.
Þá hefur ríkið mótað leiðir þannig að sjómenn komi frekar með veiðarfæri að landi heldur en að skera þau frá og láta flakka í sjóinn. Carl og Rolf segja að stundum sé erfitt að rukka mengunarvaldana beint og það geti jafnvel haft neikvæðar afleiðingar, frekar sé reynt að taka gjald í gegnum skattkerfið eða almennar álögur eins og pokasjóðurinn er dæmi um.
80% frá fiskveiðum
Carl og Rolf segja mest af því rusli sem samtök þeirra rekist á í hafi eða ströndum koma frá fiskveiðum eða um 80%. „Sumt af draslinu er gamalt, annað nýtt. Ástandið hefur skánað, einkum kemur minna frá almenningi. Umgengni fiskeldisfyrirtækjanna hefur batnað mikið og nú orðið kemur mjög lítið frá þeim.“
Þeir segja fræðslu til sjómanna lykilatriði í að draga úr menguninni. Sjómennirnir séu jákvæðir fyrir að bæta sig. „Viðhorf þeirra breytist því ruslið skemmir fyrir veiðunum. Þeir sjá hvað er að gerast þegar þeir draga inn trollið og 30% aflans er rusl eða þegar þeir horfa upp á fljótandi net með dauðum fiski sem þeir hefðu frekar viljað veiða sjálfir. Veiðarfærin eru líka dýr búnaður sem þeir vilja ekki missa. Í fyrra fundum við 100.000 íhluti úr veiðarfærum, stundum heilu netin.
Við komum samt aldrei í veg fyrir allt. Það er erfitt að hafa stjórn á aðstæðum þegar komið er út í fimm metra háar öldur,“ segja þeir.
Þrátt fyrir að reynt sé að stemma stigu við menguninni telja þeir litla von um árangur strax og spá að ástandið haldið áfram að versna næstu 7-8 ár. „Jafnvel þótt minna af því plasti sem er notað hafni í hafinu þá versnar staðan því heildarnotkunin eykst.“
Eiturefnin stærsta vandamálið
En það er ekki endilega ruslið sem flýtur um og skolar upp á fjörur sem er stærsta áhyggjuefnið. „Plastið í hafinu er stærra vandamál en margir halda og við verðum að tala um það. Aðalmengunin kemur þó ekki endilega af sýnilega ruslinu heldur eiturefnunum sem losna frá því,“ segir Rolf.
Carl segir frá því að norski umhverfisráðherrann hafi farið í blóðprufu sem sýndi örplast í blóði hans. „Það er alls staðar. Við erum alltaf að nota einnota hluti. Hold Norge Rent berst ekki gegn plasti sem slíku því heimurinn byggir á því. Það er hins vegar okkar helsti mengunarvaldur.“
Sama rusl en annað viðhorf á Íslandi
Þess vegna lagði áhöfnin á Fonn á sig siglinguna til Íslands, ræddi við heimafólk og tók til hendinni í sunnanverðum Stöðvarfirði. „Við sjáum sama ruslið hér og í Noregi, það kemur frá veiðum, en viðhorfið er annað. Við fundum fiskikör og vildum fá útgerðina á staðnum til að fjarlægja þau úr fjörunni þangað sem við höfðum komið þeim. Útgerðin vildi hins vegar ekkert gera nema körin væru merkt þeim,“ segir Rolf.
Að mati leiðangursfólksins vantar því meiri miðstýringu eins og gert hefur verið í Noregi. „Við vildum koma hingað og vekja fólk til umhugsunar um stöðuna. Allir sem við höfum hitt hafa verið afar vingjarnlegir, jafnvel þeir sem við spurðum erfiðra spurninga.“
Safna upplýsingum um stöðuna á Íslandi
Í fyrravor var opnaður vefurinn strandhreinsun.is á vegum Umhverfisstofnunar. Þar er reynt að safna upplýsingum um stöðu hreinsunar íslenskra stranda í rauntíma, að fyrirmynd Hold Norge Rent. Upplýsingarnar eru enn takmarkaðar. Þar kemur þó fram að 760 fjörubútar, um 1 km hver, hafi verið teknir frá til hreinsunar.
Á korti má sjá að á Austfjörðum hafa verið hreinsuð svæði í Berufirðri, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirðri, norðanverðum Reyðarfirði og Héraðsflóa. Fimmtán kílómetrar eru sagðir hafa verið hreinsaðir af um 5.000 km strandlengju.
Heimasíðan er hluti af fimm ára átaki í hreinsun strandlengjunnar sem grundvallast á aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn plasti. Líkt og í Noregi er ríkið með sjóð sem félagasamtök eða aðrir sem vilja hreinsa strendur geta sótt í. Á Íslandi eru 30 milljónir til ráðstöfunar á ári. Umsjón verkefnisins er nú öll komin í hendur Umhverfisstofnunar.
Verður að hreinsa upp syndirnar
Á vef stofnunarinnar eru einnig upplýsingar um vöktun en vaktaðar eru sjö strendur þar sem 100 metra kaflar eru hreinsaðir reglulega og síðan taldir þeir hlutir sem bæst hafa við frá síðustu umferð. Að meðaltali finnast 252 hlutir á hverri strönd, sem er sami fjöldi og hjá öðrum þjóðum Evrópu sem notast við OSPAR-aðferðafræðina. Meðal þeirra er Ýsuhvammur, sem er skammt fyrir utan þéttbýlið í Reyðarfirði.
„Hlutirnir eru mismargir eftir svæðum. Við sjáum áhrif þar sem byggð er nærri. Að auki geta hafstraumar eða strandgerðir myndað eins konar ruslakistur í fjörðunum,“ segir Katrín Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur í teymi hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.