Hvatt til árvekni gagnvart aurskriðum vegna mikillar úrkomu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. sep 2025 15:36 • Uppfært 02. sep 2025 15:39
Veðurstofan hvetur Austfirðinga til að vera á varðbergi og tilkynna um skriðuföll ef vart verður við þau á næstu dögum eftir mikla rigningu sem gengur yfir svæðið. Umferð hefur verið takmörkuð við árfarvegi á Seyðisfirði. Spáð er allt að 110 mm úrkomu næsta sólarhringinn.
Ár og lækir hafa vaxið nokkuð í dag enda töluvert rignt á Austfjörðum. Samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar er mesta úrkoman frá miðnætti í Innri-Botnum, fyrir ofan Seyðisfjörð eða rúmir 62 mm. Úrkoman frá miðnætti í Neskaupstað og Eskifirði er einnig komin upp undir 60 mm.
Á Seyðisfirði hefur bætt verulega í úrkomuna frá hádegi og mældist hún 11,2 mm á síðustu klukkustund, sem ekki verður lýst öðruvísi en úrhelli. Göngustígnum upp að Búðarárfossi hefur verið lokað og sömuleiðis veginum út fjörðinn undir Þófum. Þetta er gert í öryggisskyni þar sem tvö skemmtiferðaskip eru í höfn og fjöldi ferðafólks í bænum.
Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofunni er gert ráð fyrir allt að 110 mm uppsafnaðri úrkomu til morguns, mestri í kringum Seyðisfjörð og Norðfjörð. Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist náið með mælitækjum á Seyðisfirði og Eskifirði.
Veðurstofan kallar eftir að íbúar fari varlega undir bröttum hlíðum þar sem hætta getur verið á skriðum eða grjóthruni, sérstaklega að farið sé varlega í kringum árfarvegi. Óskað er eftir að tilkynnt sé um skriður og grjóthrun til skriðuvaktar. Ein skriða hefur verið tilkynnt á Eskifirði.
Frá Búðará á Seyðisfirði í dag. Mynd: Lögreglan á Austurlandi