Skip to main content

Hvatt til árvekni gagnvart aurskriðum vegna mikillar úrkomu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. sep 2025 15:36Uppfært 02. sep 2025 15:39

Veðurstofan hvetur Austfirðinga til að vera á varðbergi og tilkynna um skriðuföll ef vart verður við þau á næstu dögum eftir mikla rigningu sem gengur yfir svæðið. Umferð hefur verið takmörkuð við árfarvegi á Seyðisfirði. Spáð er allt að 110 mm úrkomu næsta sólarhringinn.


Ár og lækir hafa vaxið nokkuð í dag enda töluvert rignt á Austfjörðum. Samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar er mesta úrkoman frá miðnætti í Innri-Botnum, fyrir ofan Seyðisfjörð eða rúmir 62 mm. Úrkoman frá miðnætti í Neskaupstað og Eskifirði er einnig komin upp undir 60 mm.

Á Seyðisfirði hefur bætt verulega í úrkomuna frá hádegi og mældist hún 11,2 mm á síðustu klukkustund, sem ekki verður lýst öðruvísi en úrhelli. Göngustígnum upp að Búðarárfossi hefur verið lokað og sömuleiðis veginum út fjörðinn undir Þófum. Þetta er gert í öryggisskyni þar sem tvö skemmtiferðaskip eru í höfn og fjöldi ferðafólks í bænum.

Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofunni er gert ráð fyrir allt að 110 mm uppsafnaðri úrkomu til morguns, mestri í kringum Seyðisfjörð og Norðfjörð. Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist náið með mælitækjum á Seyðisfirði og Eskifirði.

Veðurstofan kallar eftir að íbúar fari varlega undir bröttum hlíðum þar sem hætta getur verið á skriðum eða grjóthruni, sérstaklega að farið sé varlega í kringum árfarvegi. Óskað er eftir að tilkynnt sé um skriður og grjóthrun til skriðuvaktar. Ein skriða hefur verið tilkynnt á Eskifirði.

Frá Búðará á Seyðisfirði í dag. Mynd: Lögreglan á Austurlandi